Aðsend grein frá Listfélagi Akraness.

Listfélag Akraness er að fara að taka sín fyrstu skref opinberlega og byrjum við á því að taka þátt í Vetrardögum á Akranesi 16. til 19.mars.

Nýstofnað Listfélag Akraness telur í dag hátt í fimmtíu félaga, sem er í sjálfu sér stórkostlegt í ekki stærra bæjarfélagi en Akranesi, fögnum við þessum mikla áhuga sem er fyrir félaginu.

Stefna félagsins var frá upphafi að loka ekki á neitt listform eða neinn sem vill vera í félaginu með sína list, þetta hefur leitt af sér að innan félagsins eru listamenn af ýmsum sviðum lista t.d. hljóðfæraleikarar, söngvarar, uppistandarar, sagnaþulir, myndlistarmenn, gullsmiðir og ljóðskáld svo eitthvað sé nefnt, einnig að aðild væri ekki bundin við að viðkomandi byggi á Akranesi og í því samhengi er gaman að segja frá því að nokkrir félagar búa í Hvalfjarðarsveit.

Við erum mjög spennt að hleypa okkar fyrsta verkefni af stað og sjáum fram á að þetta verði fjölbreytt og skemmtilegt verkefni.

En að komandi verkefni, fyrsta verkefni okkar sem félags verður samstarf með Björgunarfélagi Akraness og kallast það Björgum með list, yfir fjörutíu félagar taka þátt í verkefninu
.
Verkefnið gengur út á það að Listfélagið setur upp viðburð í húsnæði Björgunarfélagsins að Kalmansvöllum 2, þar sem flugeldasalan er á hverju ári, bæði félög ætla þar kynna sýna starfsemi.

Viðburðurinn gengur út á það að þar verða til sýnis og sölu um það bil fjörutíu listaverk eftir þrjátíu og fjóra listamenn félagsins.

Fyrirkomulag verður þannig að fólki býðst að bjóða í listaverkin á hljóðlegu uppboði, tilboð skrifað á miða og stungið í kassa, daglega að lokinni dagskrá verður farið yfir tilboð og hæsta tilboð gert kunnugt fyrir næsta dag, þá hefur fólk tækifæri til að yfirbjóða. Á lokadegi verða verkin seld hæstbjóðanda.

En þetta er ekki allt, í félaginu er mjög fjölbreyttur hópur listamanna og verða því fjölmargar uppákomur aðrar sem félagar standa fyrir, sem dæmi ljóðalestur, sögustund, uppistand, söngur, gítarleikur, sýning á Japanskri Samurai sverðlist svo eitthvað sé talið.

Fólk getur boðið í listaverkin og/eða gefið frjáls framlög vegna þeirra skemmtiatriða sem verður boðið upp á.

Allt fé sem safnast rennur óskipt til Björgunarfélags Akraness.

Dagskrá og opnunartímar verða birt á vef Akraneskaupstaðar.

Ekki komust allir viðburðir fyrir í þeirri dagskrá og það hafa líka bæst við atriði eftir að við þurftum að skila af okkur dagskránni svo að við ætlum að vera dugleg að auglýsa viðburðadagskrá á samfélagsmiðlum t.d. á Ég er íbúi á Akranesi.

Boðið verður upp á kaffi og kleinur á opnunardaginn, einnig svaladrykk fyrir börn.

Félagið hefur leitað til einstaklinga og fyrirtækja eftir aðstoð við verkefnið og alstaðar verið tekið vel, þökkum við kærlega fyrir það, þar má nefna;
Ísólfur Haraldsson lánar hljóðkerfi.

Verslun Einars Ólafssonar gefur kaffi og svaladrykki fyrir opnunardag.
Kallabakarí gefur kleinur fyrir opnunardag.

Við viljum hvetja alla til að fjölmenna á viðburðinn, njóta fjölskrúðugrar skemmtidagskrár og hjálpa okkur að styrkja göfugt sjálfboðastarf Björgunarfélagsins.

Stjórn Listfélags Akraness.