Norðanfiskur flytur frá Vesturgötu og sameinast Eðalfiski í Kelduflóa

Akraneskaupstaður og Brimilshólmi ehf., eitt dótturfélaga Eðalfangs, hafa undirritað samning um lóð í grænum iðngörðum í Flóahverfi á Akranesi. Eðalfang er í grunninn tvö matvælafyrirtæki með áherslu á sjávarútveg; Eðalfiskur ehf. í Borgarnesi og Norðanfiskur ehf. á Akranesi.

Stefnan er að öll starfsemi Norðanfisks flytji frá Vesturgötu á Akranesi í Kelduflóa 2 ásamt því að Eðalfiskur mun fara af stað með nýja starfsemi á lóðinni í sama húsnæði. Starfsemi Eðalfisks í Borgarnesi verður óbreytt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað sem er í heild sinni hér fyrir neðan.

Með samningnum tryggir Eðalfang sér aðgang að lóðum sem er yfir 25.000 m2 að stærð og hefur rétt til byggingar um 13.000 m2 lóðinni. Lóðin er staðsett í matvælahluta grænna iðngarða og verður lóðin afhent Eðalfangi til uppbyggingar á árinu 2024.

Með því að tryggja sér lóð og byggingarétt í Kelduflóa 2 er fyrirtækjum Eðalfangs mögulegt að stækka starfsemi sýna og ná fram markmiði sínu um að verða öflugir þátttakendur í næstu bylgju í sjávarútvegi á Íslandi sem er þegar hafin. Mikil tækifæri eru í aukinni verðmætasköpun með fullvinnslu afurða á Íslandi til útflutnings í samvinnu við eldisfyrirtækin. Á sama tíma að halda áfram að starfa sem stærsti dreifingaraðili fiskmetis á innanlandsmarkaði. Eðalfang er með skýra framtíðarsýn og stefnir á að verða leiðandi í fullvinnslu á laxaafurðum á Íslandi. Reynsla starfsfólks og núverandi eigenda, gæðavottuð vinnsla og sérstaða Íslands varðandi gæði afurða og lægra kolefnisfótspors mun nýtast vel í þeirri sókn sem félagið undirbýr af krafti á erlenda markaði.

Eins og áður hefur komið fram er Eðalfang í grunninn tvö matvælafyrirtæki með áherslu á sjávarútveg; Eðalfiskur ehf. í Borgarnesi og Norðanfiskur ehf. á Akranesi. Bæði fyrirtækin framleiða hágæða sjávarfang, hvort á sínu sviði. Eðalfiskur sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á úrvals ferskum, frystum, reyktum og gröfnum laxaafurðum þar sem stór hluti afurða fyrirtækisins er seldur á erlendum mörkuðum. Norðanfiskur ehf. sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á úrvals sjávarfangi til veitinga- og stóreldhúsa á innanlandsmarkaði ásamt sölu neytendapakkninga í verslunum um land allt. Fyrirtækin eru með 62 starfsmenn og viðskiptavini í 9 löndum. Eðalfang er einnig móðurfélag fasteignafélagsins Brimilshólma ehf.

Stefnan er að öll starfsemi Norðanfisks flytji frá Vesturgötu á Akranesi í Kelduflóa 2 ásamt því að Eðalfiskur mun fara af stað með nýja starfsemi á lóðinni í sama húsnæði. Starfsemi Eðalfisks í Borgarnesi verður óbreytt.

„Við höfum mikla trú á sóknartækifærum félagsins og teljum spennandi tíma vera fram undan og með stækkandi starfsemi getum við fylgt enn frekar eftir söluaukningu og verða öflugir þátttakendur í næstu bylgju í sjávarútvegi á Íslandi. Við höfum byggt upp mikilvæga starfsemi okkar á Akranesi og í Borgarnesi og þar viljum við áfram vera. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að vernda góða ímynd okkar gæðavottuðu vinnslu og höfum við heillast af stefnu Akraneskaupstaðar innan grænna iðngarða þar sem saman fara sjálfbærni samfélagsins, góðir starfshættir, umhverfis og loftslagsmál með aðlögun að hringrásarhagkerfinu ásamt góðum stjórnarháttum,“ segir Andri Gunnarsson stjórnarformaður Eðalfangs.

„Það er afar ánægjulegt að stíga stór skref áfram með uppbyggingu matvælahluta Grænna iðngarða í Flóahverfi. Metnaður okkar er að á hér muni starfa fremstu matvælafyrirtæki landsins og er mikill sigur fyrir vinnu okkar undanfarin ár að fá starfsemi fyrirtækja Eðalfangs á Akranes. Hér viljum við stuðla að grænni atvinnustarfsemi með betri nýtingu hráefna fyrirtækjanna sem starfa innan græna iðngarðsins og stuðlað er að þau starfi í hringrás fyrir hvert annað. Við getum stuðlað að því að frá byrjun geti fyrirtæki sem starfa innan græna iðngarðsins treyst því að hér sé starfsemi hrein og mengi ekki,“ segir Steinar Adolfsson staðgengill bæjarstjóra.

Við undirskrift samnings um lóð. Aftari röð f.v: Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar, Inga Ósk Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá Eðalfiski, Ragnar B. Sæmundsson, bæjarfulltrúi, Einar Brandsson, bæjarfulltrúi, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, Liv Aase Skarstad, bæjarfulltrúi, Líf Lárusdóttir, bæjarfulltrúi og Valdís Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Akraneskaupstað. Fremri röð f.v. Andri Gunnarsson, stjórnarformaður hjá Eðalfiski og Steinar D. Adolfsson, sviðsstjóri hjá Akraneskaupstað. Mynd/Akraneskaupstaður.