„Við erum svo heppin að hér á Akranesi er fjöldi fólks sem vill auka veg menningar í bæjarfélaginu og mun ég að sjálfsögðu reyna að finna flöt á góðu samstarfi við þau. Mér þykir mikilvægt að stefna og gildi menningar- og menntasviðs Akraneskaupstaðar endurspeglist í mínum störfum. Að við séum inngildandi og byggjum hér upp aðlaðandi menningarsamfélag fyrir íbúa og gesti í allri sinni breidd,“ segir Vera Líndal Guðnadóttir við Skagafréttir en hún var á dögunum ráðin sem Verkefnastjóri Menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað.
Vera er fædd á Akranesi og flytur í sinn gamla heimabæ með fjölskyldu sinni en foreldrar hennar eru þau Lilja Líndal Aðalsteinsdóttir og Guðni Hannesson.
„Við erum mjög spennt fyrir því að breyta til og höfum í raun verið af leita af húsnæði á Akranesi í nokkurn tíma. Síðan raðaðist þetta allt fallega upp núna í byrjun árs og við getum ekki beðið eftir að koma okkur fyrir á Brekkubrautinni. Það verður gott að eyða tíma með fjölskyldu og vinum í gamla góða heimabænum mínum. Ég tala nú ekki um þegar maður fær svona skemmtilegt tækifæri til þess að gefa eitthvað til baka til samfélagsins í nýja starfinu,“ segir Vera.
Verkefnin á mennta – og menningarsviði Akraneskaupstaðar eru fjölbreytt. Byggðasafnið í Görðum, Bókasafn Akraness, Héraðsskjalasafnið, Ljósmyndasafn og listaverkasafn Akraneskaupstaðar tilheyra þessu sviði og mun Vera einnig hafa yfirumsjón með menningarviðburðum og hátíðarhöldum sem eru á forræði menningar- og safnanefndar.
„Ég er ekki í vafa um að verkefnin verða fjölbreytt, skapandi og skemmtileg. Ég mun taka að mér faglega forystu menningar- og safnamála Akraneskaupstaðar, þar sem ég mun í samstarfi við forstöðumenn greina þarfir safnanna, skilgreina framtíðarhlutverk þeirra og vinna að þróun samfélagslegs hlutverks safnanna. Ég fer inn í þetta með opnum huga, það verður gaman að kynnast starfsemi safnanna betur og ég sé fyrir mér ákveðið sóknarfæri í því að greina vel það menningarstarf sem til staðar er í dag með tilliti til ákveðinna þátta.
Við þurfum að spyrja okkur ýmissa spurninga. Þar má nefna hvort við séum að ná að sinna öllum samfélagshópum og hvað eru önnur bæjarfélög að gera vel?
Mig langar að skilja þarfirnar með því að eiga samtal við fjölbreyttan hóp með umbætur, nýsköpun og inngildingu að leiðarljósi. Það eru einnig spennandi tækifæri til þess að þróa enn frekar hlutverk safna í skóla- og frístundum á Akranesi og stuðla þannig að samstarfi og samnýtingu m.a. með það að leiðarljósi að efla fræðslu- og menntunarhlutverk safna,“ segir Vera Líndal Guðnadóttir.