„Þetta er til skammar fyrir bæjarfélagið“ segir fremsti sundþjálfari Íslands

Sundfólk úr röðum Sundfélags Akraness hefur í gegnum tíðina stólað á velvild sundfélaga á SV-horni landsins þegar kemur að aðgengi í æfingaaðstöðu. 

Á undanförnum vikum hefur aðstaða til æfinga í Jaðarsbakkalaug verið erfið – vegna kulda og veðurs. Æfingar við slíkar aðstæður eru erfiðar og krefjandi og gæðin langt frá því sem fremsta sundfólk landsins upplifir daglega í innilaugum á SV-horni landsins. 

Afrekshópar úr röðum ÍA hafa því æft í æfingatímum í innilauginni í Laugardal hjá Sundfélaginu Ægi, Sunddeild Fjölnis, Sunddeild Fjölnis, í innilauginni íá Ásvöllum hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar og í innilauginni í Reykjanesbæ hjá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar.  Í færslu á fésbókarsíðu Sundfélags Akraness er þessum félögum færðar þakkir fyrir velvilja og liðlegheit. 

Eyleifur Jóhannesson, yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands, deilir þessari færslu og gefur Akraneskaupstað falleinkunn hvað varðar forgangsröðun og uppbyggingu á sundmannvirki á Akranesi. Eyleifur hefur á undanförnum áratug skipað sér í fremstu röð sundþjálfara á alþjóðlegum vettvangi og þjálfaði fremsta sundfólk heims hjá félagsliði í Danmörku um margra ára skeið. 

„Þetta er til skammar fyrir bæjarfélagið, sem hefur dregið lappirnar í að byggja viðunandi sundmannvirki fyrir sundkennslu, æfingar og keppni í áratugi,“ skrifar Eyleifur en hann er fæddur á Akranesi og hóf þjálfaraferil sinn hjá ÍA á sínum tíma eftir að keppnisferli hans lauk.   

„Þetta er til skammar fyrir bæjarfélagið, sem hefur dregið lappirnar í að byggja viðunandi sundmannvirki fyrir sundkennslu, æfingar og keppni í áratugi“
Eyleifur Jóhannesson
Yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands