Missir Akraneshöllin viðurnefnið „frystiklefinn“ ? 

Akraneshöllin var til umræðu á fundi Skipulags – og umhverfisráðs Akraness þann 20. mars s.l. Ytra byrði Akraneshallarinnar þarfnast töluverðs viðhalds og á fundinum var farið yfir þá valkosti sem er í stöðunni. 

Akraneshöllin var tekin í notkun sumarið 2006. Akraneshöll er óupphitað hús með gervigrasvelli og áhorfendastæði fyrir 500 manns. Þar er einnig frjálsíþróttaaðstaða og hlaupa- og göngubraut í kringum allan völlinn. Skipt var um gervigras í Akraneshöllinni árið 2018. 

Á kaldasta tíma ársins er Akraneshöllin oft kölluð frystiklefinn – og stendur höllin vel undir því nafni. Hitastigið er oftar en ekki mun lægra inni í höllinni en það hitastig sem er utandyra. 

Ásbjörn Egilsson verkefnastjóri og Lárus Ásælsson hjá Mannvit fóru yfir málið á fundinum. Þar kom fram að ýmsir valkostir hafa verið skoðaðir og þar á meðal að einangra húsið samhliða því að skipta um ytra byrðið.  

Áætlaður kostnaður við hefðbundið viðhald á ytra byrði Akraneshallar er 240 milljónir kr. og er þá miðað við óeinangrað hús. Algjör endurnýjun á ytra byrði hússins og einangrun sem miðar við að húsið verði upphitað í framtíðinni er talin kosta um 460 milljónir kr. Munurinn er 220 milljónir kr. eða sem nemur 92%. 

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvaða leið verður valin. Í fundargerð ráðsins kemur fram að mikilvægt sé að tryggja samráð við bæjarstjórn í heild sinni ásamt hagsmunaaðilum þegar endanleg ákvörðun verður tekin. Ráðið fól Ásbirni að vinna að málinu áfram.

Á sínum tíma var gert ráð fyrir að heildarkostnaðurinn við byggingu Akraneshalllar yrði 375 milljónir kr. en sú upphæð væri rúmlega 810 milljónir kr. á núvirði. 

Heildarkostnaðurinn fór í tæplega 500 milljónir kr. sem væri rúmlega 1 milljarður kr. á núvirði. 

Gervigrasið sem sett var á í upphafi reyndist dýrara og á framkvæmdartímanum voru gerðar ýmsar breytingar sem gerðu það að verkum að framkvæmdin fór 33% framúr upphaflega tilboðinu. 

Þegar Akraneshöll var tekin í notkun var ekki salernis – eða geymsluaðstaða. Það var gert eftir að húsið var opnað. Þak hallarinnar vakti athygli bæjarbúa strax eftir að húsið var tekið í notkun. Það var mislitt og í framhaldinu var það málað. Þessi kostnaður er ekki inn í heildarupphæðinni í þessari frétt.