Stórleikur í körfunni í kvöld þegar ÍA tekur á móti liði Skallagríms

Karlalið ÍA mætir í kvöld liði Skallagríms úr Borgarnesi í lokaumferð 1. deildar á Íslandsmótinu í körfuknattleik. 

Liðin hafa mæst tvívegis í deildinni á þessu tímabili, ÍA sigraði í fyrri leiknum 85-80 og Skallagrímur hafði betur í öðrum leik tímabilsins, 73-70. 

Það má því búast við hörkuleik í kvöld í íþróttahúsinu við Vesturgötu – en leikurinn hefst kl. 19:15. 

ÍA er í 8. sæti deildarinnar með 20 stig, 10 sigra og 16 töp. Skallagrímur er í 4. sæti deildarinnar og mun enda í því sæti sama hvernig leikurinn fer í kvöld. 

Álftanes hefur nú þegar tryggt sér sæti í efstu deild, Subwaydeildinni, en ÍA sigraði Álftanes þegar liðin áttust við í síðustu viku.