Deiliskipulag við Garðabraut 1 samþykkt í bæjarstjórn

Þrjár athugasemdir bárust frá Húsfélagi Skarðsbraut 3 og 5, Veitum og Vegagerðinni við deiliskipulag Garðabrautar sem auglýst var í lok síðasta árs og byrjun þessa árs. 

Skipulags- og umhverfisráð Akraness lagði til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt ásamt greinargerð skipulagsfulltrúa sem svör við þeim athugasemdum sem bárust við deiliskipulagið.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í gær deiliskipulag Garðabrautar 1 og verður skipulagið sent Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Á þessum byggingarreit  verða miklar breytingar á svæðinu á næstu misserum. 

Á lóðinni stendur bygging sem KFUM og KFUK byggði sem félagsheimili á árunum 1975-1980.

Heimild hefur verið gefin til að rífa félagsheimilið og er áætlað að þar rísi fjölbýlishús með 51 íbúðum.

Nýja fjölbýlishúsið verður 4-7 hæða stölluð bygging og bílakjallari undir garði hússins. Fjöldi bílastæða ofan jarðar 21 stæði og neðan jarðar 48.

Samkvæmt vindgreiningu sem Örugg Verkfræðistofa gerði vegna fyrirhugaðrar byggingar kemur fram að framkvæmdin muni hafa jákvæð áhrif á vindafar við Þjóðbraut 1. 

Nánar hér.