Góður sigur hjá ÍA gegn Víði í Mjólkurbikarkeppni KSÍ – hér eru mörkin frá ÍATV

Karlalið ÍA í knattspyrnu verður í hattinum í dag þegar dregið verður í 32- liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ. ÍA tók á móti liði Víðis úr Garði s.l. laugardag í 64 liða úrslitum keppninnar – en leikið var í Akraneshöllinni. 

Arnór Smárason skoraði fyrsta mark leiksins á 8. mínútu, Haukur Andri Haraldsson bætti við öðru marki með þrumuskoti á 26. mínútu. Viktor Jónsson innsiglaði 3-0 sigur þegar hann skoraði á 77. mínútu. 

Dregið verður í 32-liða úrslitum kl. 12 í dag og eru tvö lið frá Akranesi með í keppninni – ÍA og Kári.

Eftirtalin lið eru með í keppninni þegar dregið verður í dag:

Besta-deildin: Breiðablik, FH, Fram, Fylkir, HK, ÍBV, KA, Keflavík, KR, Stjarnan, Valur, Víkingur.

Lengjudeildin: Fjölnir (ef liðið sigrar Kríu), ÍA, Grindavík, Grótta, Leiknir, Njarðvík, Selfoss, Þór, Þróttur, Ægir.

2. deild: Dalvík/Reynir, KFA, KFG, Sindri, Þróttur V.

3. deild: Kári, Magni.

4. deild: KH, Uppsveitir.

5. deild: RB, Kría (ef liðið vinnur Fjölni).