För Skútunnar á Hausthúsatorg mun tefjast um nokkur ár

Fulltrúar Akraneskaupstaðar og Festi hf. hafa átt í viðræðum undanfarið og leitað sameiginlegrar lausnar varðandi ósk félagsins um viðbótarfrest á lóðaskiptum til maí 2026. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Akraness. 

Festi og Akraneskaupstaður gerðu í ágúst árið 2020 samkomulag þess efnis að bæjarfélagið leysi til sín lóðir fyrirtækisins við Þjóðbraut (Skútan) og Dalbraut (dekkjaverkstæði).

 

Akraneskaupstaður og Festi skipta á lóðum – N1 byggir upp við Hausthúsatorg.

Við Hausthúsatorg ætlar fyrirtækið byggja aðstöðu fyrir verslun, eldsneytisafgreiðslu, dekkja – og smurþjónustu. Breytingar á deiliskipulagi fyrir svæðið hefur nú verið samþykkt í bæjarstjórn og fór það í hefðbundið ferli í stjórnsýslunni.

Uppbygging Festis hf. / N1 verður norðan við Hausthúsatorgið en torgið er staðsett rétt ofan við verslunarkjarnann þar sem að Bónus og Apótek Vesturlands eru staðsett.

Í deiliskipulaginu kemur fram að gerðar verða breytingar á aðkomu ökutækja inn á Akranes í gegnum þjóðveginn sem liggur norðan við Akrafjall.

Þjóðvegurinn verður færður til norðurs og innkoma ökutækja sem koma að norðanverðu inn í bæinn (Akrafjallsveg) verður í gegnum Hausthúsatorg.

Upplýsingasvæði fyrir ferðamenn og áningarstaður er til staðar á svæðinu í dag þar sem að nýju byggingarnar verða reistar. Í deiliskipulaginu er kvöð um sérstakt upplýsingarsvæði fyrir vegfarendur og komið verði upp jarðvegsmön til að minnka ásýnd frá þjóðvegi.

Meginútivistarstíg og reiðleið verður einnig breytt þannig að þeir svegjast norður fyrir þjóðveginn eða Akrafjallsveg til norðurs.