Tímabilið að hefjast – Áfram ÍA

Aðsend grein frá, Eyjólfi Vilbergi Gunnarssyni,
framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags ÍA:

Nú heyrist fuglasöngur og gróðurinn tekur við sér, eftir kaldan vetur tekur vorið við og sumarið á næsta leiti.

Knattspyrnusumar ÍA er að hefjast, það er allt að fara á fullt! Undirbúningur hefur staðið í allan vetur, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og stjórnendur, sjálfboðaliðar, stuðningsmenn og stuðningsaðilar hafa lagt grunninn að komandi sumri.

Knattspyrnusumri sem verður nú sem endranær spennandi, skemmtilegt, krefjandi og árangursríkt. Markmið hvers og eins iðkanda er misjafnt, sumir ætla sér stóra hluti á knattspyrnusviðinu á alþjóðavísu og aðrir á landsvísu á meðan enn aðrir vilja taka þátt í skemmtilegu starfi, njóta góðrar samveru, æfinga og keppni.

Stjórn og stjórnendur hafa misjafnar áherslur sem styrkja starfið verulega, sjálfboðaliðar efla félagið til muna og styðja við allt heildar umhverfi þess. En ekki síst stuðningsmenn og styrktaraðilar félagsins.

Það skiptir félagið miklu máli að stuðningsmenn og styrktaraðilar séu sem flestir og taki eins virkann þátt í starfinu og mögulegt er, að þeir mæti og styðji við liðið þegar það er í keppni.

Eins og fyrri ár verður Norðurálsmótið haldið í sumar, er von á miklum fjölda á það mót og verður mikið fjör á fótboltavellinum.

Meistaraflokkur karla mun heyja baráttu um að komast aftur upp í Bestu deildina að ári og er það næsta víst að góður stuðningur muni efla þá í þeirri baráttu.

Meistaraflokkur kvenna setur stefnuna upp í Lengjudeildina og á sama hátt mun góður stuðningur við þær efla liðið til árangurs.

Knattspyrnufélag ÍA er í góðu samstarfi við Kára þar sem hluti framtíðar leikmanna kemur frá félaginu og munu þeir aðstoða Kára í þeirra baráttu.

Auk Norðurálsmótsins verður mikið líf hjá yngri flokkum félagsins, mikið af leikjum og þátttaka í mótum. ÍA er í góðu samstarf við Skallagrím og njótum við góðs af fjölda krakka úr Borgarfirði sem eru þátttakendur með ÍA.

Til viðbótar við skipulagða starfsemi í þjálfun, keppni og leik verður Knattspyrnuskóli Norðanfisks og Knattspyrnufélags ÍA einnig starfræktur í sumar eins og undanfarin ár.

Verður mikið um gleði, þjálfun og knattspyrnu á þeim námskeiðum líkt og ávallt.

Það er verið að undirbúa frábæra umgjörð vegna útsendinga á leikjum meistaraflokks karla í Lengjudeildinni í sumar.

KSÍ hefur verið í samstarfi við OZ um að setja upp myndavélakerfi sem byggir á 6 myndavélum sem sýna leikinn í beinni útsendingu.

Munu stuðningsmenn því geta horft á leikina hvar sem er í heiminum þegar þeir eiga ekki heimangengt. Vonumst við til að þetta kerfi verði tilbúið fyrir fyrsta leik, en það gæti verið eitthvað komið inn í tímabilið áður en svo verður. Það veltur á hversu vel gengur hjá þeim sem halda á verkefninu. Gera má ráð fyrir að gott samstarf verði á milli OZ og ÍATV um verkefnið og báðir aðilar spenntir að sjá hvernig reynist. En eins og flestir þekkja þá hefur ÍATV verið að gera frábæra hluti með sínar útsendingar og hafa þeir nú sett í loftið hlaðvarp sem enginn má missa af, ÍATV hlaðvarp. Einnig erum við á samfélagsmiðlum þar sem við kynnum ýmislegt sem er um að vera frá degi til dags. Ef þú ert ekki þegar búinn að bæta okkur við til að fylgjast með, þá endilega gerðu það núna.

Til þess að halda öllu þessu frábæra starfi gangandi þarf stuðning ykkar, stuðningsmanna Knattspyrnufélags ÍA. Ein leið til þess er að styðja við félagið með beinum fjárframlögum, en mun félagið senda út valgreiðslukröfu á næstu dögum þar sem þú sem stuðningsmaður getur greitt gjald til stuðning félaginu. Erum við afar þakklát og vonumst til að það verði jákvæðar móttökur og vilji til að styðja við félagið. Einnig er að fara af stað miðasala ársmiða, gullmiða og aðgengi að sterkum Skagamönnum.

Besta leiðin til að kaupa miða er í gegnum appið „Stubbur„ og mun miðinn þá vera rafrænn sem getur einfaldað málin fyrir miðaeiganda, hvet ég stuðningsmenn til að nýta sér það. Eins og sést hér í töflunni þá eru nokkrir valkostir vegna heimaleikja félagsins og getur þú valið það sem hentar þér best.

 

Mikilvægt er að upplýsa um skattaafslátt vegna styrkja, aðgangur að Sterkum Skagamönnum er að megninu til vegna beins styrks og kemur því skattaaflsáttur á móti. Einstaklingar geta fengið skattafslátt á móti veittum styrk upp að kr. 350.000,- á ári. Getur sá afsláttur numið á bilinu kr. 110.075 til kr. 161.875,-, miðað við hæsta viðmiðunarframlag, eftir því hvaða skattprósentu greiðandi miðast við. Er félagið með upplýsingasíðu vegna þessa í undirbúningi þar sem þú getur sent inn upplýsingar um styrkgreiðslu til félagsins að eigin vali og verður reiknivél til staðar til að sýna skattafslátt vegna framlags.

Vil ég hvetja alla Skagamenn, íbúa Hvalfjarðarsveitar, Borgfirðinga, íbúa á Vesturlandi öllu og aðra þá sem bera tilfinningar í brjósti til okkar frábæra liðs ÍA til að mæta á völlinn og styðja við liðin þegar þau keppa.

Hlökkum til að sjá ykkur, Áfram ÍA!

Eyjólfur Vilberg Gunnarsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA.