Karlalið ÍA í knattspyrnu fékk mikinn liðsstyrk í gær þegar greint var frá því að Björn Bergmann Sigurðarson hafi komist að samkomulagi um að leika með liðinu.
Björn Bergmann hefur leikið sem atvinnumaður í knattspyrnu allt frá árinu 2008 – þegar hann fór frá uppeldisfélaginu á Akranesi til norska liðsins Lilleström.

Framherjinn sterki hefur leikið með fjölmörgum liðum á síðustu 15 árum. Má þar nefna enska liðið Wolves, FCK í Danmörku, Rostov í Rússland og Molde í Noregi.
Björn Bergmann er 32 ára og hann hefur leikið 17 A-landsleiki og skorað 1 mark.
Fyrsti leikur ÍA á tímabilinu í næst efstu deild Íslandsmótsins fer fram þann 5. maí þegar ÍA fær Grindavík í heimsókn á Akranesvöll.
Björn Bergmann er annar reynslumikill atvinnumaður sem semur við uppeldisfélag sitt. Arnór Smárason, sem á einnig langan og farsælan atvinnumannaferil, snéri á ný á Skagann í vetur.