Trúbadorastemning á Nítjándu / Bistro & Grill og nýr matseðill kynntur

Hlynur Guðmundsson veitingamaður á Nítjánda / Bistro & Grill á Akranesi blæs til skemmtunar laugardagskvöldið 29. apríl í Frístundamiðstöðinni Garðavöllum við golfvöllinn á Akranesi.

Þar verða trúbadorarnir Arnþór Kristinsson og Bjarki Sigmundsson í aðalhlutverki. Nýr matseðill verður kynntur að þessu tilefni en Hlynur er að hefja sitt annað starfsár með Nítjánda / Bistro & Grill.

Arnþór Ingi og Bjarki eru fæddir og uppaldir Skagamenn. Þeir eru báðir 33 ára og hafa þeir frá 13 ára aldri spilað og sungið við allskonar tilefni. Á undanförnum mánuðum hafa þeir félagar skemmt í ýmsum veislum, á vinnustöðum og árshátíðum – og er skemmtun þeirra á Akranesi sú fyrsta hjá þeim félögum í langan tíma á heimaslóðum.

Eins og áður segir hefur Hlynur verið með veitingaþjónustu á Akranesi í rúmt ár. Hann flutti starfsemi fyrirtækisins hingað á Akranes og segir Hlynur að það sé gott að vinna á Akranesi.

„Hér er gott að vera, það frábær vinnuaðstaða hér á Garðavöllum fyrir veitingaþjónustu. Það er nóg að gera í veisluþjónustunni – og við erum að „flytja út“ veislumat héðan frá Akranesi út um allt,“ segir Hlynur og bætir við.

„Ég vil nota tækifærið og minna íbúa á Akranesi á að það eru allir hjartanlega velkomnir á Nítjánda / Bistro & Grill. Við erum staðsett í fallegu húsi við frábæran golfvöll. Hér er alltaf nóg pláss og fátt sem toppar að eiga góða stund hér, borða góðan mat og virða fyrir sér fegurðina hér á Garðavelli,“ segir Hlynur Guðmundsson veitingamaður á Nítjánda / Bistro & Grill.