Íbúakosningu á Okkar Akranes um „Opin og græn svæði“ lauk 11. apríl sl. Kosið var um 20 hugmyndir og var þátttakan mjög góð, alls kusu 708 íbúar og gat hver og einn greitt fimm atkvæði. Samanlagður atkvæðafjöldi var 3299 atkvæði. Þær hugmyndir sem hlutu flest atkvæði eru eftirfarandi:
Ævintýragarður á Merkurtúni, meiri gróður, útivistaraðstaða í Garðalundi, bætt aðgengi að fjörum, ungbarnaróló og stækkun á sleðabrekku eru þau verkefni sem skoruðu hæst í íbúakosningu á Okkar Akranes um „Opin og græn svæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað. Kosningunni lauk þann 11. apríl og var kosið um 20 hugmyndir.
Allar hugmyndir sem fóru í kosningu voru kostnaðarmetnar og rúmast innan þess ramma sem ætlaður er til þessa verkefnis.
Ævintýragarður á Merkurtúni – hönnun (454 atkvæði)
Meiri gróður á Akranes (292 atkvæði)
Útivistaraðstaða í Garðalundi (272 atkvæði)
Bætt aðgengi að fjörum (216 atkvæði)
Ungbarnaróló (202 atkvæði)
Stækkun sleðabrekku (189 atkvæði)
Ævintýragarður á Merkurtúni verður sent í hönnun þar sem hugmyndin er að útbúa fjölnota leikvöll og sameina um leið nokkrar tillögur sem bárust. Fjölnota leiksvæði fyrir allan aldur, leiktæki með aðgengi fyrir alla, ungbarnasvæði, sparkvöllur og þúfnahopp. Þegar hönnun er lokið verður hægt að hefja undirbúning með kaupum á leiktækjum. Uppsetning og frágangur verður á næsta ári.
- Tré verða gróðursett á völdum svæðum.
- Útivistaraðstaða í Garðalundi verður bætt með því að setja upp svið sem hentar til útikennslu og annarra viðburða.
- Bætt aðgengi að fjörum. Núverandi aðgengi að fjörum við Krókalón og Lambhúsasund verður lagfært auk þess sem stefnt er að því að bæta við stiga niður í fjöru við Krókalón. Jafnframt er fyrirhugað að setja þrep frá göngustíg á Breið niður að gamla vita.
- Ungbarnaróló. Ákveðið hefur verið að finna ungbarnaróló stað innan Merkurtúns.
- Stækkun sleðabrekku. Sleðabrekkan milli Byggðasafnsins og skógræktarinnar verður stækkuð.