Margrét og Kristrún Dögg ráðnar í stjórnendateymi Grundaskóla


Kristrún Dögg Marteinsdóttir og Margrét Ákadóttir verði ráðnar í störf aðstoðarskólastjóra í Grundaskóla frá og með 1. ágúst 2023. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grundaskóla.

Samhliða verða gerðar skipulagsbreytingar á stjórnskipulagi Grundaskóla með ráðningu á tveimur aðstoðarskólastjórum. Rúmlega 700 nemendur eru í Grundaskóla sem er á meðal fjölmennustu grunnskólum landsins.

Flosi Einarsson, hefur gegnt starfi aðstoðarskólastjóra Grundaskóla undanfarin sjö ár. Hann lætur af störfum í vor.

Aðstoðarskólastjórastaðan var auglýst í mars s.l. og bárust alls átta umsóknir um starfið.

Kristrún Dögg hefur lokið B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands, diplómu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og MA prófi í stjórnun og forystu frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur starfað í Grundaskóla frá 2003 sem grunnskólakennari, verkefnastjóri og s.l. sjö ár sem deildarstjóri á yngsta stigi við góðan orðstír.

Margrét færist úr starfi deildarstjóra í starf aðstoðarskólastjóra í samræmi við hugmyndir um tímabundnar skipulagsbreytingar. Margrét hefur lokið B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og lýkur MA gráðu í stjórnun og forystu frá Háskólanum á Bifröst nú í vor. Hún hefur starfað í Grundaskóla frá árinu 2000 sem grunnskólakennari, teymisstjóri og s.l. sjö ár sem deildarstjóri á mið og unglingastigi við góðan orðstír.