Telja að grenndargámastöð geti skaðað ímynd safnasvæðisins

Fyrr á þessu ári var ráðist í þá framkvæmd að setja upp grenndarstöðvar á þremur stöðum á Akranesi. Á hverri grenndarstöð eru gámar fyrir málma, gler, pappi/pappír og plast. Einnig verður möguleiki á að bæta við ílátum fyrir fleiri flokka svo sem textíl, flöskur/dósir, kertavax, rafhlöður og fleira. 

Í dag eru grenndarstöðvarnar staðsettar við Bíóhöllina við Vesturgötu, við bílstæði fyrir aftan Bókasafn Akraness og við Byggðasafnið á Görðum. 

Síðastnefnda stöðin var til umfjöllunar hjá menningar- og safnanefnd Akraness nýverið. Ráðið telur að staðsetning grenndargáma við safnasvæðið á Görðum geti skaðað ímynd svæðisins og telur nefndin æskilegt að finna þeim nýjan stað. 

Í bókun nefndarinnar kemur fram að mikilvægt sé að hugað verði að örari tæmingu gámanna á meðan þeir eru staðsettir á safnasvæðinu til að gæta að ásýnd svæðisins. 

Skipulags – og umhverfisráð Akraness fjallaði um þessa bókun ráðsins á fundi sínum þann 2. maí s.l. Þar kemur fram að ráðið leggi áherslu á að núverandi staðsetningar grenndarstöðva séu til reynslu og er endanlegum frágangi grenndarstöðva ólokið. Hugað verður að örari tæmingu grenndarstöðvarinnar og felur skipulags- og umhverfisráð umhverfisstjóra að skoða staðsetningar fyrir grenndarstöðvar.

Grenndargámastöðin sem staðsett er við Byggðasafnið átti fyrst að vera staðsett í Jörundarholti en fallið var frá þeirri hugmynd vegna nálægðar við íbúabyggð.