Sundgarpar úr ÍA slógu í gegn á Opna Íslandsmótinu í garpasundi 

Alls tóku 9 keppendur frá Sundfélagi Akraness á Opna Íslandsmótinu í garpasundi – sem fram fór dagana 5.-6. maí s.l. í Kópavogslaug. 

Keppendur voru vel á annað hundrað og komu þeir frá ellefu félögum víðsvegar af landinu. Í Garpaflokki eru keppendur 25 ára og eldri. 

Þaulreynda sundfólkið úr ÍA náði frábærum árangri. Alls 38 verðlaun, þar af 24 Íslandsmeistaratitlar og ÍA endaði í þriðja sæti í stigakeppninni. 

Eins og áður segir voru 9 keppendur frá ÍA en það er töluverð fjölgun frá því í fyrra þegar 5 keppendur tóku þátt. Breiðablik sigraði í stigakeppni liða með 45 keppendur og Sundfélag Hafnarfjarðar varð í öðru sæti með 39 keppendur. 

  • Guðmundur Brynjar Júlíusson (8 gullverðlaun).
  • Kári Geirlaugsson (5 gullverðlaun).
  • Kristín Minney Pétursdóttir (4 gullverðlaun og 4 silfurverðlaun).
  • Guðgeir Guðmundsson (3 gullverðlaun og 1 silfurverðlaun).
  • Aðrir sem unnu til verðlauna voru þau Valdimar Ingi Brynjarsson, Birna Björnsdóttir, Anna Leif Auðar Elídóttir, Silvia Llorenz og Arnheiður Hjörleifsdóttir.
  • Boðsundssveitir ÍA unnu samtals til einna gullverðlauna (kvennasveitin í 4*50 metra fjórsundi, skipuð þeim Kristínu Minney, Silviu Llorenz, Önnu Leif og Arnheiði) og þrennra silfurverðlauna.

Elín Viðarsdóttir og Berglind Valdimarsdóttir, fyrrum keppendur Sundfélags Akraness, náðu flottum árangri á mótinu – en þær eru báðar í liði Breiðabliks. Elín vann til fernra gullverðlauna og Berglind til einna gullverðlauna og þrennra silfurverðlauna.

Guðgeir, Kári, Guðmundur og Valdimar.
Kári Geirlaugsson.
Silvia Llorens og Birna Björnsdóttir.
Frá vinstri: Silvia, Kristín Minney, Arnheiður og Anna Leif.
Guðmundur Brynjar Júlíusson vann til átta gullverðlauna.
Frá vinstri: Kári, Anna Leif, Kristín Minney, Arnheiður, Valdimar, Guðgeir, Silvia og Guðmundur.