Magga og Reynir í Bílver hætta sátt og golfið tekur við

„Fólkið sem við höfum kynnst á þessum 38 árum er það sem stendur upp úr á þessum tímamótum. Við erum ekki viss hvað tekur við. Það eina sem við vitum að við eigum nú tíma til þess að sinna fjölskyldunni og öðrum verkefnum enn betur,“ sagði Reynir Sigurbjörnsson við skagafrettir.is í dag. 

Frá upphafi hefur bílaþjónusta og sala á nýjum og notuðum bílum verið hornsteinninn í rekstri Bílvers.

Hjónin Reynir  og Magndís Bára Guðmundsdóttir hafa staðið vaktina í Bílver saman ásamt öflugu starfsfólki – en nú er komið að lokum hjá þeim á þessu sviði. Þegar hjónin voru spurð hvað tæki við þá var svarið einfalt. „Við höfum meiri tíma til að sinna golfinu“ 

Saga Bílvers nær allt aftur til ársins 1985 þegar bræðurnir Reynir og Guðmundur Sigurbjörnssynir settu á laggirnar bílaverkstæði og umboð fyrir Jöfur ásamt Guðmundi Árnasyni. 

Á upphafsárum Bílvers var fyrirtækið með aðsetur á Ægisbraut.

„Við leigðum aðstöðu hjá knattspyrnuhetjunn og málarameistaranum Ríkharði Jónssyni fyrstu árin. Þetta hófst allt saman árið 1985,“ segir Reynir en hann var á báðum um framhaldið fjórum árum síðar. 

„Ég var á þeirri skoðun að hætta árið 1989 þegar Guðmundur bróðir minn fór í nám en umboðsaðili þeirra bifreiða sem við vorum að sinna á þeim tíma, Jöfur, aðstoðaði okkur að flytja á Akursbrautina – þar sem að Blikksmiðja Guðmundar er til húsa í dag. Það skipti okkur miklu máli,“ segir Reynir.  

Bílver hefur frá stofnun verið með öflugt bifreiðaverkstæði ásamt því að vera með bílasölu á notuðum bílum og umboð fyrir ýmsar bílategundir í gegnum tíðina. Honda hefur verið í fararbroddi allt frá árinu 1995 en Bílver hefur einnig verið með aðrar þekktar bílategundir á sinni könnu.

Bílver hefur frá árinu 2006 verið með rekstur fyrirtækisins í glæsilegu húsnæði við Innessveg eða í 17 ár. „Á árunum 1995-2018 áttum við í frábæru samstarfi við bílaumboðið 
Bernhard. Það samstarf varð til þess að við byggðum þetta hús hér við Innesveg.“

Hlutfall Honda CRV bifreiða á Akranesi er með því hæsta sem þekkist á landsvísu og Reynir neitaði því ekki að vel hefði gengið á undanförnum áratugum. 

„Það er staðreynd. Hlutfall Honda CRV á Akranesi er hæst á landinu. Við höfum einnig sinnt Snæfellsnesinu vel og í Ólafsvík er hlutfallið á sama stað og hér á Akranesi. Í Stykkishólmi er vörumerkið í öðru sæti,“ sagði Reynir við Skagafréttir.