Nýsköpunarfyrirtækið Running Tide hefur á undanförnum mánuðum byggt upp aðstöðu sína í Breið nýsköpunarsmiðstöð.
Í tilefni þess að fyrsta áfanga uppbyggingarinnar var lokið var haldin formleg opnun en rýmið hefur fengið nafnið Aldan.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra var heiðursgestur opnunarinnar en hún er verndari Breiðarinnar.
Kristinn Árni L. Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi hélt kynningu á starfseminni en auk þess var óháð vísindaráð Running Tide á svæðinu sem og fleiri úr vísinda- og þróunarteymi þeirra frá Bandaríkjunum.
Hér fyrir neðan má sjá myndasyrpu frá viðburðinum.
Running Tide er bandarískt loftslagsfyrirtæki sem hóf starfssemi á Akranesi sumarið 2022. Rannsóknir og framleiðsla á þörungum til kolefnisbindingar í hafi er rauði þráðurinn í starfssemi líftæknifyrirtækisins. Nýverið gerði Running Tide samning við hátæknifyrirtækið Microsoft.
Samningurinn snýr að kolefnisbindingu og hafrannsóknum, en samningurinn snýr m.a. að starfsemi Running Tide á Íslandi. Þetta er fyrsti samningurinn sem Microsoft gerir við fyrirtæki í sjávartengdri kolefnisbindingu.