Myndasyrpa: Karlalið ÍA enn án sigurs eftir jafntefli gegn Aftureldingu

Varnarmaðurinn Hlynur Sævar Jónsson tryggði karlaliði ÍA jafntefli gegn Aftureldingu í kvöld í Lengjudeild Íslandsmótsins í knattspyrnu, næst efstu deild. 

Borgnesingurinn knái, sem hefur leikið með ÍA í mörg ár, skoraði jöfnarmarkið í uppbótartíma á lokasekúndum leiksins. 

Myndasyrpa frá leiknum er hér á ljósmyndavef Skagafrétta. 

Markið skoraði Hlynur með „hælspyrnu“ þegar hann breytti stefnu boltans sem var á leið að marki Mosfellinga. 

Arnór Gauti Ragnarsson kom Aftureldingu yfir á 29. mínútu og þar notaði hann einnig hælinn á knattspyrnuskó sínum til að ýta boltanum yfir marklínuna eftir hornspyrnu gestaliðsins. 

 

Afturelding lék einum manni færri síðustu 15 mínútur leiksins – þar sem að Sævar Atli Hugason fékk rautt spjald eftir að hafa brotið á hinum leikreynda fyrirliða Skagamanna, Arnóri Smárasyni. 

 

Skagamenn skoruðu mark undir lok fyrri hálfleiks – sem leikmenn fögnuðu ákaft en dómari leiksins dæmdi markið af vegna brots á leikmanni Aftureldingar í aðdraganda marksins. 

ÍA er enn án sigurs í deildinni þegar þremur leikjum er lokið. Liðið er í næst neðsta sæti næst efstu deildar Íslandsmótsins með tvö stig, tvö jafntefli og eitt tap er uppskeran eftir þrjár umferðir. Liðinu var spáð efsta sæti deildarinnar af fyrirliðum og forsvarsmönnum Lengjudeildarliðanna. 

Afturelding er á toppi deildarinnar. 

Næsti leikur ÍA er á útivelli gegn Leikni úr Reykjavík föstudaginn 26. maí. Liðin léku bæði í Bestu deild Íslandsmótsins á síðustu leiktíð.