Skagamenn brutu ísinn með 3-2 sigri gegn Leikni

Karlalið ÍA í knattspyrnu landaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu í kvöld með 3-2 sigri gegn Leikni Reykjavík. 

Leikurinn fór fram á gervigrasvellinum í Breiðholti, heimavelli Leiknis, en liðin sem áttust við í kvöld léku bæði í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.

Gísli Laxdal Unnarsson kom ÍA yfir strax á 4. mínútu og þannig var staðan allt þar til að Omar Sowe jafnaði metin fyrir heimamenn rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Viktor Jónsson kom Skagamönnum í 2-1 með góðum skalla á 54. mínútu. Varnarmaðurinn Johannes Vall kom ÍA í 3-1 með marki eftir hornspyrnu á 79. mínútu.  

Omar Sowe lagaði stöðuna fyrir heimamenn í uppbótartíma en lokatölur leiksins 3-2. 

Með sigrinum komst ÍA upp í 7. sæti næst efstu deildar Íslandsmótsins. ÍA er með 5 stig eftir 4 umferðir. Einn sigur, tvö jafntefli og eitt tap. 

Næsti leikur ÍA er gegn Fjölni á heimavelli 1. júní.