Viðburðaríkir dagar hjá Daníel Inga – samdi við FC Nordsjælland og útskrifaðist úr Grundaskóla 

Daníel Ingi Jóhannesson hefur skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarliðið FC Nordsjælland. Danska félagið kaupir Daníel af Knattspyrnufélagi ÍA. Daníel Ingi útskrifaðist úr 10. bekk Grundaskóla í síðustu viku en hann er fæddur árið 2007 og er því 16 ára.

Daníel Ingi mun búa í Kaupmannahöfn fyrst um sinn hjá eldri bróður sínum – en Ísak Bergmann Jóhannesson leikur með FCK í Kaupmannahöfn.

Í viðtal við danska vefinn Sport.dk segir Ísak Bergmann að það verði gaman að fá bróðir sinn inn á heimilið. „Það er ekki langt frá Kaupmannahöfn og til Farum. Hann mun búa hér hjá okkur. Daníel Ingi er duglegur leikmaður og ég hef trú á því að hann fái tækifæri í dönsku úrvalsdeildinni eftir 2-3 ár,“ segir Ísak Bergmann.

FC Nordsjælland var ekki eina félagið sem sýndi Daníel Inga áhuga. Hann fór í þrígang til FCK þar sem hann æfði með félaginu. FC Nordsjælland var sett á laggirnar árið 1991 þegar Farum Idræts Klub og Stavnsholt Boldklub sameinuðust undir nýju nafni. Farum Idræts Klub var stofnaður árið 1910 og Stavnsholt Boldklub árið 1974.

Liðið leikur heimaleiki sína á Right to Dream Park leikvanginum sem tekur um 10 þúsund áhorfendur. Það er einnig fyrsti völlurinn í Danmörku þar sem leikið var á gervigrasi. Til samanburðar komast um 9.500 þúsund áhorfendur á Laugardalsvöll.

FC Nordsjælland hefur einu sinni sigrað í dönsku úrvalsdeildinni, tímabilið 2011-2012. Dönsku bikarkeppnina hefur félagið unnið tvívegis, 2010 og 2011.