Ný Hvalfjarðargöng á nýrri samgönguáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra, kynnti í dag tillögu að samgönguáætlun til næstu fimmtán ára, 2024-2038. 

Samhliða var hún birt í samráðsgátt stjórnvalda en þar er hægt að senda umsögn eða ábendingar til og með 31. júlí 2023 eða tæpar sjö vikur.

Þar kom m.a. fram að ný Hvalfjarðargöng eru fyrirhuguð – en níu hundruð milljörðum verður varið í samgönguframkvæmdir á næstu fimmtán árum.

Ef þessi áætlun verður að veruleika verða tvenn göng Hvalfjörðinn. Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun 11. júlí árið 1998 en um var að ræða einkaframkvæmd og notendur greiddu sérstaklega fyrir hverja ferð ökutækja. Gera má ráð fyrir því að einhverskonar gjaldtaka verði tekin upp víðsvegar um landið samhliða nýrri samgönguáætlun.  

Ekki var greint frá tímaáætlun í einstök verkefni á kynningarfundinum. 

Á næstu fimm árum verða 260 milljarðar lagðir til í verkefni sem tengjast samgöngumannvirkjum. 

Göng undir Öxnadalsheiði eru á dagskrá og einbreiðar brýr heyra sögunni til eftir 15 ár. 


Áhersla er lögð á að auka öryggi í samgöngum, stytta vegalengdir, tengja byggðir og umhverfis- og loftslagsmál. 


Margar mikilvægar vegaframkvæmdir eru fyrirhugaðar með áherslu á aðskilnað akstursstefna, fækkun einbreiðra brúa og lagningu bundins slitlags á tengivegi. 


Þá verða framlög stóraukin til viðhalds vega. Framlög í uppbyggingu á innanlandsflugvöllum aukast til muna með varaflugvallargjaldi og stefnt er að því að byggja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Samhliða er lögð fram sérstök jarðgangaáætlun til 30 ára með forgangsröðun á fjórtán jarðgangakostum. Mælt verður fyrir samgönguáætlun á Alþingi næsta haust.

 

Tíu jarðgöng eru á áætluninni: 

Fjarðarheiðargöng

Siglufjarðarskarðsgöng

Hvalfjarðargöng tvö

Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur

Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur

Breiðdalsleggur, breikkun

Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng

Miklidalur og Hálfdán

Klettsháls

Öxnadalsheiði