Skagamenn snéru vörn í sókn og lönduðu glæsilegum sigri

Karlalið ÍA í knattspyrnu snéri taflinu sér í hag í kvöld með góðum 6-3 sigri gegn Þrótti úr Reykjavík.

Leikurinn fór fram við bestu aðstæður á Akranesvelli en liðin eru í Lengjudeildinni sem er næst efsta deild Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. 

Með sigrinum þokaði ÍA sér upp stöðutöfluna. Liðið er í 4. sæti með 17 stig eftir 7 umferðir. 

Viktor Jónsson, framherji ÍA, skoraði þrennu fyrir ÍA í kvöld. 

Viktor Jónsson kom ÍA yfir á 20. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Guðmundur Axel Hilmarsson fyrir gestina. Aron Snær Ingason kom Þrótti í 2-1 á 32. mínúti og þannig var staðan í hálflleik. 

Ágúst Karel Magnússon kom gestunum í 3-1 með marki á 52. mínútu og staðan var erfið fyrir heimamenn á þeim tímapunkti leiksins. 

Arnleifur Hjörleifsson hóf endurkomu ÍA með marki á 54. mínútu og staðan 3-2 fyrir Þrótt.  Varnarmaðurinn Hlynur Sævar Jónsson setti ÍA í kjörstöðu þegar hann jafnaði metin á 60. mínútu – og þá voru báðir vængbakverðir ÍA búnir að skora í leiknum. 

Framherjinn Viktor Jónsson kom ÍA í 4-3 með öðru marki sínu í leiknum á 70. mínútu . Hinn þaulreyndi fyrirliði ÍA, Arnór Smárason skoraði úr vítaspyrnu á 79. mínútu . 

Viktor Jónsson fullkomnaði þrennuna með marki á 88. mínútu og 6-3 voru lokatölur leiksins.