Hópferðabílar Reynis Jóhannssonar frumsýndu í gær tvo nýja rafmagnsstrætisvagna sem notaðir verða í almenningssamgöngum á Akranesi. Ný öflug hleðslustöð hefur einnig verið sett upp hjá fyrirtækinu.
Akranes er fyrsta bæjarfélagið á Íslandi þar sem að almenningssamgöngur eru eingöngu drifnar áfram á rafmagni.
Vagnarnir koma frá kínverska framleiðandanum King Long en slíkir vagnar hafa verið í notkun í Noregi og Svíþjóð – og hafa þeir reynst vel í vetraraðstæðum.
Hægt er að aka allt að 400 km. á einni hleðslu og tekur um 4 klst. að hlaða vagninn. Öryggi vagnanna er framúrskarandi og útlit þeirra stórglæsilegt.
Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að með þessari rafvæðingu á almenningssamgöngum bæjarins sé stórt skref tekið í átt að loftslagsmarkmiðum bæjarins. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt og nýta sér þennann vistvæna ferðamáta sem þeim býðst endurgjaldslaust.