Það verður líf og fjör á Akranesi næstu daga þegar Norðurálsmótið í knattspyrnu fer fram dagana 22.-25. júní. Mótið fer nú fram í 38. skipti og má gera ráð fyrir tæplega 1800 keppendum.
Yngstu keppendur mótsins sem eru í 8. flokki hefja leik fimmtudaginn 22. júní. Þeirra keppni hefst kl. 13 og stendur yfir fram til kl. 17.
Formleg setning Norðurálsmótsins fer fram föstudaginn 23. júní með veglegri skrúðgöngu. Leiðin verður með hefðbundnum hætti – þar sem að skrúðgangan hefst við Stjórnsýsluhús Akraness við Stillholt og setning mótsins fer fram í Akraneshöll.
Á föstudeginum 23. júní hefst keppni 12:30 þar sem að leikmenn drengja – og stúlkna í 7. flokki hefja leik.
Mótið í ár er það fyrsta þar sem að boðið er upp á mót fyrir 7. flokk stúlkna á Norðurálsmótinu.
Í tilkynningu frá Knattspyrnufélagi ÍA kemur fram að Norðurálsmótið er skipulagt á forsendum iðkenda, með það í huga að allir séu með í leiknum til að skapa jákvæða og skemmtilega upplifun barna sem eru að stíga sín fyrstu skref í fótbolta.