Karlalið ÍA í knattspyrnu heldur áfram að þoka sér upp stigatöfluna á Íslandsmótinu – Lengjudeildinni sem er næst efsta deild.
Í kvöld mætti ÍA liði Þórs frá Akureyri við góðar aðstæður á Norðurálsvelli.
Leikmenn ÍA sýndu allar sínar bestu hliðar og lönduðu sínum fjórða sigri í röð með 4-0 sigri.
Skagamenn voru með yfirhöndina allt frá byrjun og sóttu án afláts í fyrri hálfleik.
Haukur Andri Haraldsson opnaði markareikning Skagamanna með þrumufleyg rétt undir lok fyrri hálfleiks. Glæsilegt mark hjá hinum efnilega leikmanni en þetta var fyrsta mark hans á Íslandsmótinu.
Gísli Laxdal Unnarsson bætti við öðru marki fyrir heimamenn með góðu skoti á 60. mínútu – en þetta var jafnframt annað mark hans á tímabilinu í deildarkeppninni. Staðan 2-0.
Viktor Jónsson kom ÍA í 3-0 á 72. mínútu en þetta var áttunda mark framherjans á tímabilinu.
Rétt undir lok leiksins kom Daníel Ingi Jóhannesson inná sem varamaður og skipti hann við hinn þaulreynda fyrirliða ÍA, Arnór Smárason.
Daníel Ingi, sem er fæddur árið 2007, fékk fyrirliðabandið hjá Arnóri – í tilefni þess að Daníel Ingi var að leika sinn síðasta leik í bili fyrir ÍA en hann fer nú til Nordsjælland í Danmörku.
Daníel Ingi nýtti tækifærið vel og skoraði með sinni fyrstu snertingu í leiknum og gulltryggði ÍA 4-0 sigur.
Í lok leiksins fögnuðu samherjar Daníels Inga veglega með því að „trollera“ hinn unga leikmann og fjölmargir stuðningsmenn ÍA kunnu vel að meta.
Daníel Ingi heldur nú í atvinnumennsku hjá danska úrvalsdeildarliðinu. Hann hefur heldur betur skráð sig í sögubækur ÍA.
Hann er yngsti leikmaðurinn sem hefur spilað deildarleik með ÍA – og sá yngsti sem hefur skorað í deildarleik – en markið í kvöld var annað mark hans á tímabilinu.