Umsögn um skipulagslýsingu vegna aðal- og deiliskipulags Jaðarsbakka á Akranesi

Aðsend grein frá áhugafólki um aðstöðu íþróttahreyfingarinnar á Jaðarsbökkum. 

Undirritað áhugafólk um aðstöðu íþróttahreyfingarinnar á Jaðarsbökkum, verndun Langasands og aðgengi almennings að svæðinu, komum hér með á framfæri umsögn okkar um drög að skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðra breytinga á aðal- og deiliskipulagi Jaðarsbakka.  

Undirrituð leggja áherslu á vandaðan undirbúning fyrirhugaðra breytinga og virku samráði við almenning. Við treystum því einnig að breytingarnar gangi ekki gegn náttúru svæðisins, aðgengi almennings og nýtingu þess fyrir íþróttafólk til lengri framtíðar.  

Vísað er til auglýsingar Akraneskaupstaðar vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi Akraness 2021 – 2033 og endurskoðunar deiliskipulags Jaðarsbakka skv. 30. gr. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123 frá 2010.

Almennt:

Í ákvæðum 30. gr. og 40. gr. skipulagslaga segir efnislega að þegar vinna við gerð aðalskipulagstillögu og deiliskipulagstillögu hefst skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Þar skal koma fram hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum. 

Í upphafi skipulagslýsingarinnar segir eftirfarandi:  

„Bæjarstjórn Akraness áformar endurskoðun á skipulagi Jaðarsbakka með það að markmiði að byggja upp miðstöð lýðheilsu, en þar er m.a. átt við byggingu hótels, baðlóns og íþróttaaðstöðu, auk skoðun á möguleikum þess að þétta byggð. Lögð verður áhersla á íþróttir og náttúru á svæðinu með skýrri tengingu við sjóinn og Langasand.“

 

 

Um er að ræða áform um mjög umfangsmiklar breytingar á svæði sem skilgreint hefur verið sem íþróttasvæði um hartnær 90 ára skeið. Hreppsnefnd Ytri Akraneshrepps afhenti íþróttafélögum á Akranesi Jaðarsbakkasvæðið árið 1934 til framtíðar og var upphaflegur knattspyrnuvöllur gerður af sjálfboðaliðum. Þeir lögðu á árinu 1935 um 7000 klst. í vinnu við svæðið sem ótvírætt  tilheyrir samfélaginu og íþróttahreyfingunni. Ákvæði núgildandi aðal- og deiliskipulags eru mjög skýr. Skipulagslýsing fyrirhugaðra breytinga gerir ráð fyrir starfsemi sem miðast við að uppfylla ákvæði viljayfirlýsingar sem bæjarstjórn Akraness og Ísold fasteignafélag ehf. gerðu með sér í marsmánuði 2023. Því má segja að efni skipulagslýsingarinnar hafi orðið til án kynningar og samráðs við bæjarbúa áður en hin eiginlega skipulagslýsing er auglýst.  Slík málsmeðferð er ekki góð forsenda breytinga eða vönduð stjórnsýsla. Má í því sambandi benda á mun vandaðra verklag sem viðhaft var við breytingar á svonefndum Sementsreit.

Almennt eru því eftirfarandi athugasemdir gerðar við skipulagslýsinguna í heild sinni:

 1. Fyrirliggjandi skipulagslýsing er mjög almenn lýsing þar sem allnokkuð skortir á að áherslur bæjarstjórnar séu skýrar. Vera kann að hún uppfylli almenn ákvæði skipulagslaga, en gera verður kröfu um aukinn skýrleika þegar fyrirhugaðar eru svo umfangsmiklar framkvæmdir á svæðinu sem lesa má út úr lýsingunni.
 2. Skipulagslýsingin byggist á viljayfirlýsingu við fjárfesti án þess að gerð viljayfirlýsingarinnar hafi verið kynnt bæjarbúum. Sú staða bendir til þess að skoðanir bæjarbúa muni ekki vega þungt í afgreiðslu skipulagsþáttar málsins.
 3. Minnt er á ákvæði 1. greinar skipulagslaga  þar sem markmið laganna er sett fram m.a. um að tryggja menningarverðmæti, varðveislu náttúru og koma í veg fyrir ofnýtingu.  Þar er einnig lögð áhersla á samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að almenningi sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda.
 4. Miðað við það umfang mannvirkja sem gert er ráð fyrir á Jaðarsbökkum og með hliðsjón af fjölda barna og ungmenna sem nýta íþróttamannvirkin og liðlega 700 nemenda Grundaskóla, er óhjákvæmilegt að gera rækilega grein fyrir gatnatengingum og umferðaröryggi í skipulagslýsingunni. Skipulagslýsingin gerir ekki ráð fyrir að þessir umhverfisþættir verði metnir.
 5. Orðalag um þéttingu byggðar bendir til áhuga bæjarstjórnar á að byggja íbúðir á æfingasvæðinu, en gerð er alvarleg athugasemd við slíkar hugleiðingar og þeim harðlega mótmælt.  Mikilvægt er að bæjarstjórn taki það orðalag úr skipulagslýsingunni. 
 6. Í skipulagslýsingunni er gert ráð fyrir að stækka aðal- og deiliskipulagssvæðið frá því sem nú er og teygja svæðið yfir lóðir þar sem eru fjölbýlishús við Garðabraut og Höfðabraut.  Ekki verður séð hvaða tilgangi þessi stækkun þjónar og ekki er nefnt í lýsingunni í hvaða tilgangi þetta er gert.
 7. Í skipulagslýsingunni er tekið fram að unnið verði með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna m.a. um efnisþættina heilsa og vellíðan, sjálfbærar borgir og samfélög og aðgerðir í loftslagsmálum. Augljóst er að „þétting byggðar“ og íbúðabyggð á Jaðarsbökkum vinnur gegn þessum markmiðum með tilliti til nálægðar við Langasand, sem allir ættu að vera sammála um að verja og varðveita.
 8. Í skipulagslýsingunni er í einni setningu minnst á  skoðanakönnun sem Akraneskaupstaður lét gera í lok árs 2020 og í byrjun 2021 um þróun Jaðarsbakka og aðliggjandi svæða.   Könnunin var rafræn íbúakönnun um viðhorf íbúa til þessa svæðis og framtíðarskipulags þess. Þar koma fram skýrar skoðanir og væntingar þeirra sem þátt tóku. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér og ættu að vera hluti af skipulagslýsingunni: 

https://www.akranes.is/is/frettir/ibuasamrad-vegna-hugmyndasamkeppni-um-langasand-nidurstodur-ur-konnun

 1. Eitt af markmiðum breytinga er samkvæmt skipulagslýsingunni að bæta aðgengi og  efla staðaranda svæðisins.  Ekki verður séð af lýsingunni hvernig ná eigi markmiðum um eflingu staðarandans, sem hefur á liðnum áratugum tengst útivist á Langasandi og íþróttum á Jaðarsbökkum.

Forsendur breytinga og staðhættir:

Í þeim kafla skipulagslýsingarinnar er lýsingu á þeirri starfsemi sem er  og hefur verið um áratugaskeið á Jaðarsbökkum verulega ábótavant.  Vegna þessa er rétt að minna á eftirfarandi:

Allt frá árinu 1934 hefur verið knattspyrnuvöllur á Jaðarsbökkum eins og greint er frá hér að framan.  Árið 1987 var, fyrir forgöngu sjálfboðaliða, gert æfingasvæði á austanverðu svæðinu með fjórum knattspyrnuvöllum. Æfingasvæðið var nefnt Guttavellir. en Guðbjartur Hannesson, fyrrum skólastjóri Grundaskóla, bæjarfulltrúi, þingmaður og ráðherra var mikill stuðningsmaður ÍA og knattspyrnunnar m.a. varðandi afnot félaga ÍA að skólahúsnæðinu þegar á þurfti að halda.  Íþróttahús ÍA var þar byggt af íþróttahreyfingunni og tekið í notkun árið 1987 og Jaðarsbakkalaug tekin í notkun árið 1988.  Árið 2004 var hafin bygging Akraneshallar og hún tekin í notkun árið 2006, þar sem áður var malarvöllur.  Það er verulegum vandkvæðum bundið að mögulegt sé að koma fyrir á svæðinu allri þeirri starfsemi sem lýst er í formála skipulagslýsingarinnar – án þess að skerða verulega athafnasvæði sem ætlað er til íþrótta.  Ástæða er til að nefna nokkur atriði sérstaklega sem mæla eindregið gegn þessari lýsingu á fyrirætlun bæjarstjórnar:

 1. Sú bæjarsaga sem fólgin er í knattspyrnunni á Akranesi eru verðmæti sem á að styrkja í stað þess að þrengja að aðstöðu Knattspyrnufélags ÍA.  Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið á aðstöðu félagsins síðustu ár, þar sem félagsaðstaða er nánast engin og aðalvöllur, þak Akraneshallar og æfingasvæði án eðlilegs viðhalds og umhirðu, þá er – þrátt fyrir orð um bætta aðstöðu, verið að draga úr vægi félagsins, starfseminnar og aðstöðu íþróttafólks.
 2. Miðað við hugmyndir um nýja starfsemi og þá starfsemi sem fyrir er, þá er ljóst að aðkomuleiðir, aukin umferð stærri bifreiða þarfnast verulegrar skoðunar áður en settar eru fram hugmyndir um verulega aukna starfsemi á svæðinu.
 3. Hugtakið „þétting byggðar“ er fráleitt á grænu svæði, sem er samkvæmt aðalskipulagi og deiliskipulagi íþróttasvæði sem nýtt er fyrir iðkendur og almenning.
 4. Iðkendur íþrótta á Akranesi eru alls um 2.700.  Innan  Knattspyrnufélags ÍA eru tæplega 600 iðkendur og yfir 200 iðkendur innan Sundfélags Akraness.  Starf þessara tveggja félaga hefur um áratuga skeið verið bæjarfélaginu ómetanlegt og afar mikilvægt.  Skerðing og stefnuleysi varðandi aðstöðu þeirra er því óviðunandi.  Fjölgun bæjarbúa og þ.m.t. barna og unglinga kallar á skýra sýn á uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum. 

Bygging hótels og baðlóns

Varðandi hótelbyggingu á svæðinu er ljóst að það svæði sem er til umráða er ekki stórt og aðkoma takmörkuð. Eftirfarandi í skipulagslýsingunni vekur athygli og spurning um hversu raunhæft er að gera ráð fyrir ýmsum þáttum:

 1. Staðhæft er að fyrirhugað hótel verði með 100 herbergjum.  Engar teikningar liggja fyrir um útlit, rými og umfang annarrar aðstöðu í fyrirhuguðu hótelinu.
 2. Staðhæft er að nefnt hótel verði byggt í áföngum.  Slíkt gefur ekki fyrirheit um ásýnd svæðisins til lengri tíma. 
 3. Staðhæft er að stækkunarmöguleikar verði til staðar.  Engin rýmisáætlun liggur fyrir  – hvorki fyrir fyrirhugaða byggingu í fyrsta áfanga eða stækkun hótelsins.
 4. Tilgreint er að áhersla sé á látlaust og fágað yfirbragð bygginga og góðar tengingar auk þess sem þær falli vel að umhverfi sínu.  Ekki verður séð hvernig bæjaryfirvöld ætli að tryggja þennan þátt málsins.
 5. Sterk og góð tengsl við Langasand er talin nauðsynleg.  Áhyggjuefni margra er að aðgengi vegna starfsemi hótels og baðlóns muni skerða eða breyta aðgengi almennings að Langasandi og Jaðarsbökkum.
 6. Staðhæft er að rekstur hótels byggist á sterkum tengslum við íþrótta- og heilsutengda starfsemi í bænum og á Jaðarsbökkum. Skilgreina þarf mun betur með hvaða hætti ná eigi slíku fram.  Ef um er að ræða hótel fyrir íþróttahópa er rétt að slíkt komi fram en ef um er að ræða almenna ferðamenn þá er vandséð að þeir hafi sérstaka tengingu við íþróttir.

Vafalaust er unnt að nýta vestasta hluta svæðisins betur en nú er gert.  Hins vegar er bent á að á svonefndum þyrlupalli hafa þyrlur lent m.a. í tengslum við starfsemi og þjónustu HVE.  Eflaust má finna slíkri aðstöðu annan stað en skynsamlegt er að hafa um það samráð við stjórnendur HVE.  Svæðið verður hins vegar ekki stækkað með því að flytja Akranesvöll á annan stað.  Mögulegt er að færa völlinn nær Akraneshöllinni en brottnám vallarins felur í sér að merkilegt kennileiti á Akranesi verður afmáð.  Við slíkt verður ekki unað. Auðvelt á að vera fyrir bæjarstjórn að kveða skýrt á um þetta atriði.

Orðalag skipulagslýsingar og önnur smærri atriði:

 1. Óljóst er með öllu hvað átt er við með orðalagi um „aðrar breytingar í tengslum við framtíð sundlaugarmála á Akranesi“.
 2. Ástæðulaust er að tilgreina yfirborðsefni knattspyrnuvallar þar sem náttúrulegt gras, hybrid gras eða gervigras sæta sérstakri skoðun.
 3. Staðhæfing um að engar ár eða lækir renni  á Langasand á tæplega erindi í kaflann þar sem þau augljósu sannindi hafa legið fyrir býsna lengi.
 4. Í skipulagslýsingunni segir: „Núverandi affallslagnir duga ekki lengur til að veita öllu vatni af svæðinu“  Spurningin er hvort að baki þessarar fullyrðingar liggi athuganir?  Augljóst er hins vegar að með aukinni umferð og nýrri starfsemi mun affalls- og yfirborðsvatn aukast.
 5. Í skipulagslýsingunni segir m.a.: „Er það (svæðið) því nokkuð blautt og stundum ónothæft þess vegna.“ Hér kannast elstu menn ekki við neitt.  Ljóst er að grasvellir á Íslandi og þ.m.t. á Akranesi eru nýttir frá vori og fram á harða haust.  Aðalvöllurinn hefur aldrei verið óleikfær vegna bleytu – þó svo að ástand hans hafi sökum vanhirðu farið versnandi.  Æfingasvæðin hafa á eðlilegum notkunartíma, aldrei verið ónothæf vegna bleytu.
 6. Tímaferill fyrirhugaðrar skipulagslýsingar miðast við tímasetningar viljayfirlýsingar Akraneskaupstaðar og fasteignafélagsins Ísoldar.  Miðað við yfirlýsingar um „alvöru íbúasamráð“ má ætla að tímaferillinn sé ekki raunhæfur.

Með vísan til framangreindra atriða er eftirfarandi beint til bæjarstjórnar að hafa að leiðarljósi við fyrirhugaða breytingu á aðal- og deiliskipulagi á Jaðarsbökkum:

 1. Öllum hugmyndum um „þéttingu byggðar“ og byggingu íbúða á æfingasvæðinu á Jaðarsbökkum er harðlega mótmælt.  Æfingasvæðið var gert af sjálfboðaliðum á vegum Knattspyrnufélags ÍA árið 1987. Svæðið fékk nafnið Guttavellir og hefur verið mikilvæg aðstaða æfinga og viðburða barna og ungmenna á vegum KFÍA. Svæðið þjónar um 600 iðkendum, sem hefur fjölgað síðustu ár og mun fjölga á komandi árum. Skerðing svæðisins mun vinna gegn hagsmunum íþróttahreyfingarinnar og við slíkt verður ekki unað. Mikilvægt er að bæjarstjórn hafi þá framtíðarsýn að Jaðarsbakkasvæðið eigi að þjóna íþróttaiðkun barna og ungmenna um langa framtíð. 
 2. Öllum hugmyndum um flutning eða snúning Akranesvallar er mótmælt, enda hefur leikvangurinn þjónað íþróttahreyfingunni á Akranesi í tæp 90 ár og verið vettvangur merkilegra viðburða í sögu bæjarins. Völlurinn og mannvirki við hann þarfnast hins vegar viðhalds og endurnýjunar og er því beint til bæjarstjórnar að gera áætlun um framkvæmd þeirra verkefna. 
 1. Um margra ára skeið hefur staðið til að bæta aðstöðu sundfólks og sundkennslu á Akranesi.  Ekki verður lengur vikist undan því að koma því verkefni til framkvæmda.
 2. Áður en gefin verða frekari loforð um starfsemi á Jaðarsbökkum, sem ekki mun þjóna börnum, ungmennum, skólum og íþróttahreyfingunni er óhjákvæmilegt að fyrir liggi skoðun og úttekt á flæði umferðar og gatnatengingum þannig að öryggi nemenda Grundaskóla og iðkenda íþróttafélaganna verði hvorki rýrt  né stefnt í tvísýnu.
 3. Skorað er á bæjarstjórn að virða aðgang almennings, nemenda Grundaskóla og iðkenda íþróttafélaganna að Jaðarsbökkum og Langasandi.  Þessi svæði eru ómetanleg verðmæti og vettvangur lífsgæða á Akranesi, sem umgangast ber í þágu bæjarbúa af virðingu og varúð. Vænst er að tekið verði tillit til framangreindrar umsagnar við endanlega samþykkt skipulagslýsingarinnar, en ef svo verður ekki er ljóst að fylgja þarf málinu frekar eftir.

Akranesi í júní 2023