Kvennalið ÍA í knattspyrnu lyfti sér á topp 2. deildar Íslandsmótsins með 7-0 sigri gegn Sindra. Leikurinn fór fram á Höfn í Hornafirði.
Þetta er í annað sinn sem ÍA sigrar Sindra með 7 marka mun á þessar leiktíð – en liðin mættust í 1. umferð Íslandsmótsins.
Róberta Lilja Ísólfsdóttir kom ÍA yfir á 2. mínútu, Bryndís Rún Þórólfsdóttir kom ÍA í 2-0 á 11. mínútu. Telma Pais Bastos skoraði sjálfsmark á 23. mínútu og staðan var 3-0 fyrir ÍA í hálfleik.
Jaclyn Ashley Poucel kom ÍA í 4-0 á 54. mínútu og Erna Björt Elíasdóttir bætti við fimmta markinu þremur mínútum síðar.
Vala María Sturludóttir skoraði sjötta mark ÍA aðeins nokkrum mínútum eftir að hún kom inná sem varamaður. Markið hjá Völu kom 79. mínútu. Erna Björt gulltryggði 7-0 sigur ÍA með sínu öðru marki á 89. mínútu.
ÍA er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig eftir 11 umferðir. ÍA hefur nú unnið 7 leik, tapað 2 og gert 2 jafntefli. Mörkin úr leiknum eru hér fyrir neðan.
Meistaraflokkur kvenna gerði góða ferð á Höfn í Hornafirði þar sem þær léku gegn Sindra í hádeginu. pic.twitter.com/XgVcehwQCE
— ÍATV (@ia_sjonvarp) July 9, 2023