Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson er á förum frá danska liðinu FCK til franska liðsins Lille.
Danski fréttavefurinn BT greinir frá og segir að Hákon fari í læknisskoðun hjá franska félaginu í dag. Lille endaði í fimmta sæti frönsku deildarinnar á síðasta tímabili og leikur í Sambandsdeild Evrópu.
Hákon Arnar skrifaði nýverið undir nýjan samning við FCK eða fyrir tæplega hálfu ári. Hann er tvítugur og hefur verið hjá FCK frá því að félagið keypti hann frá ÍA.
Knattspyrnufélag ÍA fær hluta af kaupverðinu í sinn hlut í formi uppeldisbóta og samkomulags í samningi við FCK þegar Hákon fór til danska liðsins á sínum tíma.
Ef af þessum viðskiptum verður þá mun Hákon Arnar verða langdýrasti leikmaðurinn frá Akranesi. Arnór Sigurðsson var seldur frá Norrköping í Svíþjóð til CSKA í Moskvu á um 520 milljónir kr. á sínum tíma. ÍA fékk um 10% af þeirri sölu og má gera ráð fyrir að hlutfallið sé svipað í tilviki Hákons.