Hákon Arnar í frönsku deildina og ÍA nýtur góðs af för hans til Lille

Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson gekk í raðir franska liðsins Lille í dag frá FCK í Danmörku. 

Félagið greindi frá komu Hákons Arnars í dag þegar hann skrifaði undir fimm ára samning við félagið – sem gildir til ársins 2028. 

Hinn tvítugi Hákon Arnar hefur vakið mikla athygli á undanförnum misserum með FCK og A-landsliði Íslands. Fjölmörg félög höfðu áhuga á að kaupa hann frá FCK en franska liðið greiddi háa fjárhæð fyrir Hákon – sem gerði nýverið fimm ára samning við FCK. 

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum fær FCK um 130 milljónir danskar kr. fyrir Hákon Arnar sem samsvarar um 2,6 milljörðum íslenskra króna. 

Þar með setur Hákon Arnar ný viðmið hvað varðar fjárhæð á sölu leikmanns sem kemur úr röðum ÍA. Arnór Sigurðsson var keyptur á sínum tíma frá Norrköping til CSKA í Moskvu fyrir um 500 milljónir ísl. kr. 

Gera má ráð fyrir að ÍA fái í það minnsta 10% af kaupverðinu í formi uppeldisbóta. Fotbolti.net segir frá því að ÍA gæti fengið tæplega 20% af kaupverðinu vegna sérstaks ákvæðis í samningi ÍA og FCK þegar Hákon var keyptur af danska liðinu á sínum tíma. 

Hákon Arnar fetar í fótspor þekktra leikmanna frá Akranesi sem létu að sér kveða í frönsku deildinni á sínum tíma. Teitur Þórðarson lék með Lens á árunum 1981–1983 þar sem hann skoraði 20 mörk í 48 leikjum. Hann lék með Cannes tímabilið 1983-1984 og skoraði þar 9 mörk í 30 leikjum. 

Karl Þórðarson lék með Laval í Frakklandi á árunum 1981 1984 þar sem hann lék 98 leiki og skoraði 12 mörk.

 

Félagið sem Hákon Arnar samdi við heitir Lille Olympique Sporting Club. Á síðustu leiktíð varð félagið í fimmta sæti deildarinnar og leikur því í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð. 

Heimavöllur félagsins, Stade Pierre-Mauroy, tekur rúmlega 50 þúsund áhorfendur en völlurinn var tekin í notkun árið 2012. Aðeins þrír aðrir knattspyrnuvelli í Frakklandi taka við fleiri áhorfendum. Stade Pierre-Mauroy er með þaki sem hægt er að loka ef aðstæður eru með þeim hætti. 

Lille var stofnað árið 1944 þegar Olympique Lillois og SC Fives sameinuðust. Félagið var í fremstu röð á árunum 1946-1956 þar sem liðið vann franska meistaratitilinn sjö sinnum. Árið 2011 varð félagið tvöfaldur meistari, þar sem Lille vann bæði deildar – og bikarkeppnina. Félagið hefur verið á meðal fjögurra bestu liða Frakklands undanfarna tvo áratugi. Átta sinnum hefur Lille tekið þátt í Meistaradeild Evrópu. 

Félagið hefur búið til fjölmarga leikmenn í gegnum tíðina með öflugu unglingastarfi. Má þar nefna Eden Hazard, Mathieu Debuchy, Yohan Cabaye, Lucas Digne, Benjamin Pavard, Divock Origi og Martin Terrier.