Bæjarráð tekur jákvætt í umsókn um sölu á „heilsubita“ á Aggapalli

Aggapallur við Langasand gæti fengið byr undir báða vængi ef hugmyndir um sölu á heilsubita á Aggapalli ganga eftir. 

Á fundi bæjarráðs í lok júní tók ráðið jákvætt í erindi frá aðila sem hefur áhuga á að taka Aggapall á leigu. Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að hugmyndir þessa aðila gangi út á að hefja rekstur vorið 2024 – þ.e. næsta vor. 

Í fundargerðinni stendur m.a. 

„Hugmynd hans er að hefja rekstur þarna næsta vor. Var honum á bent á að afla þyrfti m.a. leyfis hjá heilbrigðiseftirliti og hvað varðar aðstöðuleigu vísað til fyrirliggjandi gjaldskrár um stöðuleyfi matarvagna. Einnig var nefnt við umsækjanda þann mögulega að aðrir gætu haft áhuga á “pop up“ veitingaþjónustu.

Stefnt er að því að ræða við forstöðumann Íþróttamannvirkja um nánara fyrirkomulag og vinna málið áfram.

Bæjarráð fagnar frumkvæði umsækjanda sem er til þess fallið að glæða svæðið frekara lífi og felur bæjarstjóra að vinna að framgangi málsins.“