Stærsta tap ÍA frá upphafi í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu

Karlalið ÍA tapaði í gær 5-1 á heimavelli gegn Leikni úr Reykjavík í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildinni. Þetta er stærsti ósigur karlaliðs ÍA í næst efstu deild frá upphafi. 

Leikurinn fór fram við flottar aðstæður á Akranesvelli í gærkvöld að viðstöddum rúmlega 400 áhorfendum. Róbert Hauksson skoraði fyrsta mark Leiknis á 7. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði hinn eldfljóti framherji Omar Sowe annað mark Leiknis. Viktor Jónsson minnkaði muninn fyrir ÍA þegar hálftími var liðinn af leiknum. 

Staðan var 2-1 í hálfleik.

Andi Hoti kom Leikni í 3-1 á 82. mínútu. Omar Sowe var aftur á ferðinni þegar hann bætti vði fjórða marki Leiknis á 82. mínútu og hann fullkomnaði þrennu sína með fimmta marki Leiknis á 87. mínútu. 

ÍA er í þriðja sæti eftir 14 umferðir með 27 stig. 

Hér er fyrir neðan er hægt að sjá mörkin úr leiknum frá ÍATV.