Karlalið ÍA í knattspyrnu vann sinn þriðja leik í röð í næst efstu deild Íslandsmótsins, Lengjudeildinni, þegar botnlið Ægis frá Þorlákshöfn kom í heimsókn á Akranesvöll.
Með 4-0 sigri kom ÍA sér í góða stöðu fyrir síðustu fimm leiki mótsins – en liðið er í harðri baráttu við Aftureldingu um efsta sæti deildarinnar sem gefur sæti í Bestu deildinni á næsta ári.
Liðin í sætum 2-5 mætast í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar.
Framherjinn Viktor Jónsson heldur áfram að skora en hann skoraði fyrsta mark ÍA á 12. mínútu og hann bætti við öðru marki á 16. mínútu. Staðan var 2-0 í hálfleik.
Varnarmaðurinn Hlynur Sævar Jónsson kom ÍA í 3-0 á 58. mínútu en þetta var sjötta mark hans á tímabilinu. Hlynur Sævar er næst markahæsti leikmaður ÍA en hann leikur í hjarta varnar ÍA.
Ármann Ingi Finnbogason skoraði fjórða mark leiksins á 84. mínútu – en hann kom inná sem varamaður í síðari hálfleik.
Viktor er markahæstur í deildinni en hann hefur nú skorað 17 mörk í 17 leikjum.
Næsti leikur ÍA er gegn Þrótti á heimavelli þeirra í Laugardalnum í Reykjavík sunnudaginn 20. ágúst – og hefst leikurinn kl. 19:15.