Þrjú verkefni á Akranesi fengu nýverið nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina úr Lóunni. Alls fengu 25 verkefni styrk en heildarupphæðin var 100 milljónir kr. líkt og undanfarin ár. Alls bárust tæplega 100 umsóknir.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Hlutverk Lóunnar er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni á forsendum svæðanna sjálfra.
Í ár var sérstaklega horft til verkefna sem komin eru af byrjunarstigi og tengjast samfélagslegum áskorunum á borð við loftslagsmál, sjálfbærni í heilbrigðis- og menntamálum og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.
Sem dæmi um verkefni sem hljóta styrk í ár eru áburðarframleiðsla, þróun matvöru úr þangi og sjávarþara á Vestfjörðum, uppbygging sjálfbærar matvælaframleiðslu á Austurlandi, þróun og vinnsla bioplasts úr hampi á Norðurlandi Eystra og samfélagsverkefnis um að nýta rafíþróttir til að efla færni á vinnumarkaði á Norðurlandi.
Verkefni í öllum landshlutum hlutu styrk og kynjahlutfall er nokkuð jafnt.
Verkefnin sem fengu styrk á Akranesi eru:
Algló ehf. fékk um 8,5 milljónir kr. fyrir sjálfbæra öflun þara, örvinnslu og vöruþróun sæmetis.
Valdís Fjölnisdóttir og Nýsköpunarsetrið Breið fékk 2,6 milljónir kr. fyrir loftslagsbaujur á Breið.
Kaja Organic ehf. fékk 1.5 milljón kr. vegna jurtamjólkurverksmiðju.