Lagt til að skráningardagar verði teknir upp á leikskólum Akraneskaupstaðar

Skólaárið 2023-2024 verður farið í tilraunaverkefni á leikskólum Akraneskaupstaðar þar sem að teknir verða upp skráningardagar – þar sem að foreldrar óska eftir því að nýta þá þjónustu leikskólans á skilgreindum dögum. 

Alls er um að ræða 11 daga og er verkefnið tengt þeim áskorunum sem leikskólar bæjarsins standa frammi fyrir vegna styttingu vinnuvikunar. 

Skóla – og frístundaráð Akraneskaupstaðar tók málið fyrir á fundi nýverið og leggur til við bæjarráð að skráningardagar verði teknir upp. 

 

Í fundargerð Skóla – og frístundaráðs kemur eftirfarandi fram: 

 

„Verkefni betri vinnutími eða stytting vinnuvikunnar í leikskólum hófst árið 2020 og var markmið þess að full stytting, sem nemur fjórum klukkustundum á viku, væri komin á í mars 2023 án þess að komi til skerðingar þjónustu eða viðbótar starfsfólk. Það hefur reynt verulega á starfsemi leikskóla á Akranesi og annarra sveitarfélaga og nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að mæta þessum kjarasamningsbundna rétti starfsfólks án þess að það komi niður á gæðum leikskólastarfsins. Skóla- og frístundaráð tekur undir ábendingar leikskólastjórnenda að bregðast þurfi skjótt við vegna innra skipulags leikskólanna og af tillitssemi við foreldra.

 

Ráðið leggur til að farið verði í tilraunarverkefni skólaárið 2023-2024 þar sem teknir verða upp skráningardagar. Þá skrá foreldrar börn sín sérstaklega ef þeir hyggjast nýta sér þjónustu leikskólans á skilgreindum skráningardögum. Leikskólarnir verða opnir öllum þeim sem þurfa á þjónustu að halda en starfsemin sniðin að fjölda barna. Með því er hægt að skipuleggja leikskólastarfið fyrirfram og gera starfsfólki kleift að nýta þá daga til að taka út uppsafnaða styttingu vinnuvikunnar. Skráningardagarnir verða 11 á starfsárinu, vetrarfrí grunnskólanna í október (2 dagar), í kringum jól og áramót (4 dagar), vetrarfrí grunnskólanna í febrúar (2 dagar) og í Dymbilviku (3 dagar). Þeir foreldrar sem ekki nýta þjónustu leikskólans alla 11 skráningardagana fá desember mánuð gjaldfrjálsan. Þau sem nýta þjónustuna að einhverju leyti þessa skilgreindu skráningardaga fá einungis felld niður leikskólagjöld sem nemur þeim dögum í mánuði sem fjarvera er. Skráningar eru bindandi og þurfa að berast leikskólastjóra eigi síðar en 30. september ef foreldrar hyggjast nýta gjaldfrelsi í desember 2023.“