Góður sigur Káramanna gegn toppliði Reynis

Lið Kára frá Akranesi lagði topplið Reynis frá Sandgerði þegar liðin mættust í gær í 3. deild karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni og með sigrinum komst Kári í fimmta sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. 

Gestirnir komust yfir strax á 3. mínútu þegar Julio Cesar Ferndandes skoraði fyrir Reyni. Hektor Bergmann Garðarsson jafnaði metin fyrir Kára með marki á 24. mínútu og Helgi Rafn Bergþórsson kom heimamönnum 2-1 með marki á 38. mínútu. Keston George jafnaði fyrir Reyni fjórum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks – staðan 2-2. 

Sigurjón Logi Bergþórsson kom Kára 3-2 yfir á 54. mínútu og Sindri Lars Ómarsson skoraði fjórða mark Káramanna á 61. mínútu. Þegar 20 mínútur voru eftir skoraði Kristófer Páll Viðarsson þriðja mark Reynis og staðan 4-3. Mikil spenna var á lokakafla leiksins en Káramenn drógu þrjú stig á land með sigrinum.

Reynir er enn á toppi deildarinnar með 44 stig, þremur stigum fyrir ofan Kormák/Hvöt. Kári er með 29 stig í fimmta sæti deildarinnar eins og sjá má hér fyrir neðan. 

Leikskýrslan er hér með öllum atvikum og liðsuppstillingu: