Þórður Þórðarson, fyrrum leikmaður og þjálfari Knattspyrnufélags Akraness, snýr aftur til starfa hjá Knattspyrnusambandi Íslands eftir tveggja ára hlé.
Þórður mun þjálfa þrjú landslið kvenna, U-16 ára, U-17 ára og U-23 ára.
Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, sem er einnig frá Akranesi, verður aðstoðarþjálfari Þórðar hjá U-23 ára landsliðinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.
Þórður, sem hefur lokið KSÍ Pro gráðu, hefur mikla reynslu sem þjálfari og hefur m.a. þjálfað bæði karla og kvennalið ÍA í meistaraflokki og starfaði einnig sem yfirþjálfari ÍA. Þórður var landsliðsþjálfari U19 kvenna frá árinu 2014 til 2021 ásamt því að vera aðstoðarþjálfari U16/17 kvenna á sama tímabili.
Bára Kristbjörg lék um margra ára skeið með ÍA. Hún hefur verið þjálfari frá árinu 2014 bæði hér á Íslandi sem og í Svíþjóð.
Bára hefur farið í fjölda verkefna á vegum KSÍ sem aðstoðarþjálfari og leikgreinandi, fyrst árið 2017. Bára er sjúkraþjálfari að mennt og hefur lokið UEFA A þjálfaragráðu.
Margrét Magnúsdóttir, þjálfari U19 kvenna, mun aðstoða Þórð með U16/17 kvenna ásamt því að halda áfram með þjálfun U19 kvenna.