Vilt þú taka þátt í spennandi vetrarstarfi hjá Kór Akraneskirkju?

Kór Akraneskirkju er um þessar mundir að hefja vetrarstarfið eftir sumarfrí.

Síðastiliðinn sunnudag söng kórinn í útvarpsmessu frá Akraneskirkju og flutti meðal annars sálma úr nýútgefinni sálmabók Þjóðkirkjunnar. Einsöngvarar með kórnum voru Björg Þórhalsdóttir, Halldór Hallgrímsson og Katrín Valdís Hjartardóttir.

Löng hefð er fyrir öflugu kórstarfi við Akraneskirkju. Aðalhlutverk kórsins er að syngja við guðsþjónustur en einnig er æft fyrir tónleika sem haldnir eru að minnsta kosti tvisvar á ári, ýmist með kirkjulegu eða veraldlegu efni, auk fleiri skemmtana svo sem aðventukvöldin og hin rómuðu kaffihúsakvöld kórsins.

Á síðasta ári flutti kórinn Requiem eftir Fauré með einsöngvurum og hljómsveit í nýstárlegu tónleikahúsi, Hafbjargarhúsinu niðri á Breið á Akranesi. Síðastliðið vor söng kórinn Carmina Burana eftir Carl Orff, ásamt fleiri kórum, einsöngvurum og Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir fullum Eldborgarsal Hörpu.

Margt er í bígerð næstu mánuði en kórinn mun flytja aftur Requiem Faurés 31.október í Kristskirkju Landakoti og þá með systurkórnum, Söngfjelaginu, en Hilmar Örn Agnarsson organisti Akraneskirkju stjórnar báðum þessum kórum.

Kórfélagar í Kór Akraneskirkju eru um 40 en bæta má við söngfólki í allar raddir. Reynsla af kórsöng og þekking á nótnalestri er kostur en ekki skilyrði.

Æfingar eru einu sinni í viku, á þriðjudögum kl.19:30-22.

Kórnum er skipt í minni hópa sem syngja við guðsþjónustur og þá er æft í klukkustund fyrir messu sem eru kl. 20 á sunnudagskvöldum.

Áhugasamir geta haft samband við Hilmar Örn Agnarsson kórstjóra í síma 8494708 eða Rún Halldórsdóttur formann kórsins í síma 8214277