Karlalið ÍA tryggði sér sæti í deild þeirra bestu á ný

Karlalið ÍA tryggði sér í dag sæti í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. ÍA sigraði Gróttu 4-1 á heimavelli og tryggði þar með efsta sætið í deildinni sem gefur sæti í Bestu deildinni á næsta ári. Liðin í sætum 2-5 leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar í efstu deild. 

Viktor Jónsson kom ÍA í 1-0 á 11. mínútu með sínu 19. marki á tímabilinu. 

Gabríel Hrannar Eyjólfsson, leikmaður Gróttu, fékk rautt spjald á 28. mínútu og  Arnór Smárason kom ÍA í 2-0 með marki úr vítaspyrnu. Staðan var 3-0 fyrir ÍA í hálfleik þar sem að Aron Bjarki Jósepsson fyrrum leikmaður ÍA skoraði sjálfsmark á lokamínútu fyrri hálfleiks. 

Viktor Jónsson bætti við fjórða markinu á 73. mínútu og skoraði sitt 20. mark á tímabilinu.  Hilmar Andrew McShane skoraði mark fyrir Gróttu á 84. mínútu – lokatölur 4-1. 

Afturelding (2) og Leiknir R. (5) mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fjölnir (3) og Vestri (4) mætast einnig í úrslitakeppninni. Sigurliðin úr þessum viðureignum mætast í úrslitaleikum um laust sæti í efstu deild. 

Selfoss og Ægir falla úr 1. deild í 2. deild.