Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa á undanförnum áratugum safnað ómetanlegum heimildum um knattspyrnuna á Akranesi.
Ný og glæsileg heimasíða, Á Sigurslóð, var kynnt til sögunnar s.l. föstudag í Tónbergi að viðstöddu fjölmenni. Þar fór Stefán Jónsson yfir hugmyndafræðina á bak við heimasíðuna. Gunnlaugur Jónsson, bróðir Stefáns, og fyrrum leikmaður – og þjálfari flutti einnig stutt erindi um bakgrunn heimasíðunnar.
Eggert Hjelm Herbertsson formaður Knattspyrnufélags ÍA flutti þakkarávarp til þeirra feðga, ásamt Hrönn Ríkharðsdóttur formanni Íþróttabandalags Akraness.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur, flutti skemmtilegt erindi um sögulega leiki hjá ÍA og Fram en Stefán er mikill stuðningsmaður Fram.
Á nýju heimasíðunni er að finna margra áratuga vinnu Jóns og Stefáns – sem þeir vonast til þess að verði sem flestum til gagns og gamans. Síðan er nútímaleg með áhugaverðu efni og ætlað að ná til fólks á öllum aldri. Með því að gera söguna aðgengilega er opnaður gluggi á leikmenn fortíðar og þann bæjarbrag sem knattspyrnan hafði sterk áhrif á.
„Þetta er ekki neinn endapunktur, ég myndi frekar segja að þetta sé upphafið af einhverju meira og stærra en það er samt sem áður mikil gleði, og smá léttir að við séum að fylgja þessari heimasíðu úr hlaði í dag,“ skrifar Stefán í pistli sem hann birti þegar heimasíðan var opnuð með formlegum hætti.
Á sigurslóð er heimasíða um knattspyrnuna á Akranesi, þar sem upplýsingum og sögumolum um leikmenn og viðburði liðinna áratuga er safnað saman á einn stað.
Saga þessarar alþýðumenningar er samfélaginu á Akranesi mikilvæg. Hún er hluti af sögu bæjarfélagsins, ímyndar þess og orðspors, en um leið hluti af sjálfsmynd íbúanna og minning um einstaklinga, fjölskyldur og viðburði sem mikilvægt er að halda í heiðri.
Merk saga styður við ímynd samfélagsins og gerir það áhugavert fyrir þá sem þar búa eða vilja þangað flytja.