Elsa Maren lét fuglunum „rigna“ á Vatnsmótinu

Elsa Maren Steinarsdóttir hefur náð frábærum árangri á þessu keppnisári í golfíþróttinni. 

Akranesmeistarinn í golfi kvenna 2023 lék um síðustu helgi sinn besta hring frá upphafi. Það gerði hún á Vatnsmótinu, sem er elsta golfmót Golfklúbbsins Leynis. 

Hún lék hringinn á 65 höggum eða 7 höggum undir pari. Hún fékk alls átta fugla (-1) og einn örn (-2) á hringnum. Elsa Maren fékk fimm fugla í röð – á fyrri 9 holunum – en slíkt „fuglastríð“ gerist mjög sjaldan.

Elsa Maren jafnaði þar besta skor á Garðavelli af rauðum teigum. Tinna Jóhannsdóttir, GK, lék einnig á 65 höggum af rauðum teigum árið þann 6. júní árið 2009. 

Árangur Elsu Marenar mun að öllum líkindum standa sem nýtt vallarmet af rauðum teigum – en töluverðar breytingar hafa verið gerðar á nokkrum teigum vallarins frá árinu 2009. Formleg ákvörðun þess efnis á eftir að koma frá Golfklúbbnum Leyni. 

Elsa Maren hefur skipað sér í fremstu röð kylfinga í flokki 17-21 árs stúlkna. Hún varð stigameistari á unglingamótaröð GSÍ í þeim aldursflokki nýverið. Á Íslandsmóti unglinga 2023  í flokki 17-21 árs varð hún í þriðja sæti.