Dean Martin var í dag ráðinn sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍA. Styrktarþjálfun og þróun ungra leikmanna verður helstu verkefni hins reynslumikla þjálfara hjá félaginu.
Dean er búsettur á Akranesi en hann hefur á undanförnum fimm árum verið þjálfari hjá karlaliði Selfoss. Hann hefur einnig þjálfað hjá KA, Breiðabliki, ÍA, ÍBV. Hann stýrði um tíma hæfileikamótun hjá KSÍ og var í þjálfarateyminu hjá kvennalandsliði Kína.
Hann er með UEFA Pro þjálfaragráðu og BS-gráðu í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík.
Dean á að baki 169 leiki fyrir ÍA en hann á að baki langan feril sem leikmaður – og á m.a. að baki leiki í efstu deild á Englandi með West Ham.
Haraldur Árni Hróðmarsson var aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla en hann hefur látið af störfum.