Foreldrafélag Brekkubæjarskóla krefst ítarlegra svara vegna húsnæðismála og umferðaröryggis

Foreldrafélag Brekkubæjarskóla sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem að félagið krefst ítarlegra svara frá bæjaryfirvöldum vegna húsnæðismála – og umferðaröryggis. Foreldrafélagið óttast að slæm staða í húsnæðismálum komi niður á velferð og námi nemenda skólans. 

List – og verkgreinastofur skólans hafa verið lokaðar vegna loftgæðavandamála undanfarin tvö ár og er áætlað að sú lokun standi yfir í tvö ár til viðbótar. Heimilsfræðistofa skólans hefur verið lokuð af sömu ástæðu frá því í byrjun þessa árs – og nýverið var tekin sú ákvörðun að loka íþróttasal í íþróttahúsinu við Vesturgötu vegna lélegra loftgæða – og verður salurinn lokaður allt þetta skólaár. 

Yfirlýsingin er hér fyrir neðan: 

Við foreldrar og forráðamenn barna í Brekkubæjarskóla viljum hér koma á framfæri áhyggjum okkar af stöðunni í húsnæðismálum skólans sem og umferðaröryggi umhverfis skólann.

Við óttumst að slæm staða í húsnæðismálum skólans komi niður á velferð og námi barnanna okkar. Nemendur Brekkubæjarskóla hafa síðustu skólaár ekki haft aðgang að list – og verkgreinastofum í skólahúsnæðinu og fyrir liggur að svo verði a.m.k. í tvö ár í viðbót. Við upphaf þessa skólaárs bættist við heimilisfræði stofan í þennan hóp og nú síðast íþróttahúsið við Vesturgötu.


Skólinn býr yfir gríðarlegum mannauði sem hefur síðustu misseri staðið frammi fyrir afar krefjandi áskorun í kennslu og öllu skólastarfi vegna þessa og sér ekki fyrir endan á því.

Við komumst ekki hjá því að vekja einnig athygli á umferðaröryggi við skólann. Skortur á gangbrautum um Háholt sem og þeirri staðreynd að strætóstoppistöð við Brekkubæjarskóla er nánast á gatnamótum Háholts og Vesturgötu. Við teljum staðsetningu hennar ógna öryggi barnanna. Þegar strætó stoppar, hindrar hann sýn akandi vegfarenda um Háholt svo slys gætu auðveldlega orðið. Við höfum nokkrum sinnum vakið athygli á þessu undanfarin 2 ár, en höfum engar fregnir fengið af úrbótum.


Við stöndum við bakið á skóla barnanna okkar og viljum sjá verkin tala. Við skorum á bæjaryfirvöld að hika hvergi og leita allra leiða til að kappkosta að framkvæmdir við skólahúsnæðið og íþróttahúsið dragist ekki á langinn og að umferðaröryggi við skólann sé tryggt. 


Foreldrar barna í Brekkubæjarskóla óska hér með eftir ítarlegri upplýsingum um framkvæmdir við skólann og íþróttahúsið. Við óskum eftir upplýsingum um tímalínu framkvæmdanna og vera upplýst reglulega um framgang þeirra og skorum á að umferðaröryggið verði bætt áður en slys verður!