Brekkubæjarskóli tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Brekkubæjarskóli er á meðal fimm skólastofnanna sem gætu fengið Íslensku menntaverðlaunin 2023 fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur.

Nánar hér:

Í umsögn segir að Brekkubæjarskóli hafi þróað árangursríka teymiskennslu, inngildandi og lýðræðislega starfshætti

Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Þessar menntastofnanir eru tilnefndir:

Brekkubæjarskóli á Akranesi
Bungubrekka, frístundamiðstöð Hveragerðisbæjar
Framhaldskólinn í Mosfellsbæ
Grunnskólinn í Vestmannaeyjum
Leikskólinn Ugluklettur í Borgarnesi

Í Brekkubæjarskóla á Akranesi hefur á undanförnum árum, verið unnið markvisst að því að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp. Þverfagleg teymi eru mynduð um hvern árgang með það að markmiði að gera starfsfólki kleift að sinna þörfum allra barna. Í teymunum eru umsjónarkennarar, fagfólk úr stoðþjónustu (t.d. sérkennari, þroskaþjálfi, iðjuþjálfi eða tómstundafræðingur) og stuðningsfulltrúar. Saman bera teymin ábyrgð á námi og velferð allra barna þar sem markmiðið er að virða margbreytileikann og viðhafa inngildandi starfshætti.

Brekkubæjarskóli hefur verið í fararbroddi í inngildandi starfsháttum, greining er ekki forsenda þess að börn fái þjónustu, þess í stað er stuðningur veittur samkvæmt þörfum hvers barns. Kennarar hafa lagt sérstakt kapp á að koma vel til móts við nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn. Nefna má að pólskukennsla er í boði í skólanum. Þessi nálgun skólans er mjög í anda nýrra laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Brekkubæjarskóli hefur orðið öðrum skólum fyrirmynd um þessi vinnubrögð og stjórnendateymi skólans hefur miðlað reynslu sinni af örlæti til annarra skóla. 

 Í Brekkubæjarskóla er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti. markvisst unnið að því að efla nemendalýðræði og virkni nemenda, t.d. er skólinn einn af brautryðjendaskólum í innleiðingu nemendastýrðra viðtala og hefur verið öðrum skólum stuðningur og fyrirmynd í þeim efnum. Fjórum sinnum á ári eru haldnar morgunstundir í íþróttahúsi skólans þar sem allir nemendur og starfsfólk koma saman og áhorfendapallar eru þéttsetnir foreldrum og ættingjum. Á morgunstundum koma nemendur fram á sviði og flytja ýmis atriði í tali og tónum, en skólinn er kunnur fyrir öfluga tónlistarkennslu. Allur tónlistarflutningur, kynningar á atriðum, tækni- og sviðsvinna og undirbúningur er í höndum nemenda með aðstoð starfsfólks skólans.

Skólastjóri Brekkubæjarskóla er Arnbjörg Stefánsdóttir.

Í umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu skólans sagði m.a.:

Í skólanum er teymiskennsla og svokölluð samkennsla þar sem allur árgangurinn er einn bekkur … Allt teymið (kennarar og fagaðilar) er inni í öllum málum nemenda … Kennararnir græða gríðarlega mikið á því að hafa fagaðila ávallt sér við hlið og nemendur fá mun heildstæðara og sterkara utanumhald og þar fyrir utan græða þeir nemendur sem almennt myndu ekki fá sérfræðiaðstoð á sérþekkingu fagaðilans, t.d. eða tilfinningavanda eða hegðunarerfiðleika … Sem foreldri get ég ekki nógsamlega lofað þetta skipulag og næ sennilega alls ekki að koma því nógu vel frá mér hversu skilvirkt það er fyrir allt utanumhald utan um nemendur, bæði þá sem þurfa sérstaka aðstoð sem og alla aðra nemendur.

Samtök áhugafólks um skólaþróun, Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar standa að þessari tilnefningu.