Árni Þór fékk Minningarskjöld Súsönnu frá Badmintonfélagi Akraness

Skagamaðurinn Árni Þór Hallgrímsson fékk nýverið Minningarskjöld Súsönnu sem Badmintonfélag Akraness veitir.  

Skjöldurinn er veittur í minningu Súsönnu Steinþórsdóttur sem starfaði mikið fyrir félagið sem foreldri.

Skjöldurinn er veittur til einstaklings sem hjálpar, hvetur og styður með gleði og vináttu.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að í Árna Þór eigi félagsmenn traustan vin. Árni Þór er mikill Skagamaður sem hafi sterkar taugar til félagsins. Árni Þór er ávallt tilbúinn að styðja og hjálpa félaginu og iðkendum þess.

Árni Þór er yfirþjálfari hjá Tennis – og Badmintonfélagi Reykjavíkur, TBR. Ferill hans hófst á Akranesi þar sem hann lék fyrir hönd ÍA. 

Hann var um margra ára skeið í fremstu röð sem keppnismaður í íþróttinni og keppti m.a. á Ólympíuleikunum í Barcelona á Spáni árið 1992 í einliða – og tvíliðaleik. 

Brynja Kolbrún Pétursdóttir og Irena Rut Jónsdóttir afhentu Árna viðurkenninguna.  

Brynja Kolbrún Pétursdóttir og Irena Rut Jónsdóttir afhentu Árna viðurkenninguna.