Ice Docs kvikmyndahátíðin fékk menningarverðlaun Akraneskaupstaðar 2023

Heimildarmyndarhátíðin Ice Docs fékk hefur á undanförnum fimm árum sett mikinn svip á menningarlífið á Akranesi. Markmið hátíðarinnar er að koma því besta sem er að gerast í alþjóðlegri heimildamyndagerð á framfæri á Íslandi og tengja saman kvikmyndagerðafólk víðs vegar að úr heiminum.

Hátíðin fékk í gær afhent Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar 2023. Ingibjörg Halldórsdóttir og Heiðar Mar Björnsson tóku við viðurkenningu þess efnis í gær – á formlegri opnun menningar – og listahátíðarinnar Vetrardagar á Akranesi. 

Í umsögn á vef Akraneskaupstaðar kemur eftirfarandi fram:  

„Menningar og safnanefnd telur það mikla lukku fyrir bæjarfélagið að stofnendur hátíðarinnar velji að halda hana hér í bæ, gott aðgengi bæjarbúa að hágæða heimildamyndum og innsýn inn í þennan skapandi miðil er mikilvægt fyrir fjölbreytni í menningarlífi bæjarins og ómetanlegt tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn. Eins er hátíðin jákvæð kynning á bænum okkar og aðstandendur leggja sig fram við að dreyfa dagskrárliðum á áhugaverða staði. Glæsilega kvikmyndahúsið Bíóhöllin spilar lykilhlutverk á hátíðinni, Breiðin hýsir ýmsa viðburði og lokahóf, Akranesviti, Guðlaug og Byggðasafn eru heimsótt af öllum erlendum gestum hátíðarinnar. Þá má jafnframt nefna að Bjarnalaug fékk nýtt hlutverk í ár sem sundbíó.

Þá er einnig mikilvægt að nefna hvernig hátíðin leggur sitt af mörgum til barnamenningar og hvetur til þátttöku barna og ungmenna. Framkvæmd þessa þáttar hefur verið mismunandi frá ári til árs en frá árinu 2019 hefur ungmennum að 18 ára aldri verið gefið tækifæri til að kynnast skapandi kvikmyndagerð frá A-Ö í heimildasmiðju, námskeiði í heimildamyndagerð fyrir börn, sem lauk með sýningu í Bíóhöllinni.

Forsvarsmenn hátíðarinnar starfa í góðri samvinnu við samfélagið og má nefna að í ár var sérstaklega aðdáunarvert hvernig hátíðin tók höndum saman með skipuleggjendum Hinseginhátíðar Vesturlands með fjölbreyttum hliðarviðburðum, þar sem hátíðirnar röðuðust á sömu helgi.

Utanumhald og framsetning hátíðarinnar er með eindæmum fagleg og bænum til mikils sóma. Það er aðdáunarvert og alls ekki að ástæðulausu að hátíðin hafi haldið velli, vaxið og dafnað þrátt fyrir heimsfaraldur sem bankaði upp á eftir fyrsta árið.“