Karlalið ÍA í körfuknattleik landaði góðum sigri gegn liði Snæfells í leik liðanna í næst efstu deild Íslandsmótsins sem fram fór s.l. föstudag. Leikurinn fór fram í Stykkishólmi.
ÍA var með fimm stiga forskot eftir 1. leikhluta 27-22 og í hálfleik var ÍA með 16 stiga forskot, 50-34.
Myndina tók Jónas H. Óttarsson.
Heimamenn minnkuðu forskotið í þriðja leikhluta og ÍA var með átta stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 66-58. Lokaleikhlutinn var æsispennandi þar sem að ÍA var alltaf yfir – allt þar til að heimamenn jöfnuðu metin 10 sekúndum fyrir leikslok, 87-87. Framlengja þurfti leikinn og þarf náðu leikmenn ÍA sér á strik og lönduðu 108-101 sigri.
Srdan Stojanovic var stigahæstur í liði ÍA með 35 stig, Þórður Freyr Jónsson var með 10 líkt og Chimaobin Oduocha. Hjá heimamönnum var Jaeden King stigahæstur með 42 stig.
ÍA er í 7. sæti með 2 sigra og 2 töp í fyrstu fjórum umferðunum. Alls eru 12 lið í deildinni, efsta liðið eftir deildarkeppnina fer beint upp í efstu deild. Liðin í sætum 2.-9. leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar í efstu deild á næsta tímabili.