Karlalið ÍA í knattspyrnu hóf nýverið undirbúningstímabilið fyrir keppnistímabilið í Bestu deild Íslandsmótsins 2024.
Skagamenn sigruðu í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð og mæta til leiks í efstu deild Íslandsmótsins á ný vorið 2024.
Á undanförnum vikum hefur félagið samið við nýja leikmenn og endursamið við marga lykileikmenn.
Marko Vardic kemur til ÍA frá liði Grindavíkur en hann er 28 ára miðjumaður – sem getur einnig leikið sem miðvörður. Vardic er Slóveni og var einn besti leikmaður Grindavíkur á síðustu leiktíð.
Sóknarmaðurinn Hinrik Harðarson, sem er einn efnilegasti framherji landsins samdi við ÍA nýverið. Hinrik er fæddur árið 2004 en hann hefur samt sem áður verið í lykilhlutverki í liði Þróttar í Reykjavík undanfarin ár. Hann lék alla 22 leiki Þróttar s.l. sumar og skoraði alls 11 mörk.
Ísak Máni Guðjónsson samdi við ÍA út leiktíðina 2025. Hann kemur frá Víkingi Ólafsvík en Ísak Máni er fæddur árið 2005 og er efnilegur leikmaður.
Þá hefur ÍA endursamið við markakónginn Viktor Jónsson út leiktíðina 2025. Hann hefur spilað 132 leiki fyrir ÍA frá árinu 2019 og skorað alls 60 mörk.
Hinn þaulreyndir Steinar Þorsteinsson hefur einnig samið á ný við ÍA. Steinar hefur leikið 264 leiki fyrir ÍA og skorað 58 mörk – en hann er leikjahæsti leikmaðurinn í leikmannahópi ÍA.
Jón Gísli Jónsson samdi við ÍA út leiktíðina 2026 en hann er fæddur árið 2002 – en er með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Jón Gísli hefur leikið 125 leiki fyrir ÍA og skorað í þeim 4 mörk. Hann á að baki 32 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Hlynur Sævar Jónsson samdi einnig út leiktíðina 2025. Hlynur Sævar var í stóru hlutverki í vörn ÍA á síðustu leiktíð og hann lét mikið að sér kveða í markaskorun liðsins – og var næst markahæsti leikmaður tímabilsins með 10 mörk. Hlynur Sævar hefur leikið 105 leiki fyrir ÍA og skorað alls 15 mörk.
Markvörðurinn Logi Mar Hjaltested hefur einnig samið við ÍA. Hann er fæddur árið 2005 og var markvörður Kára á síðustu leiktíð.
Fyrr í sumar var endursamið við varnarmanninn Johannes Vall út leiktíðina 20025. Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA skrifaði einnig nýjan samning út tímabilið 2025
Varnarmaðurinn Alex Davey verður ekki með ÍA á næstu leiktíð – en glímdi við meiðsli á síðustu leiktíð eftir að hafa slitið hásin á undirbúningstímabilinu s.l. vetur.