Verslunin Hans og Gréta fagnar 10 ára afmæli í dag

Í dag eru stór tímamót hjá versluninni Hans og Gréta sem staðsett er við Þjóðbraut 1 á Akranesi. Fyrir áratug var verslunin sett á laggirnar og 10 ára afmælið er því í dag.

Hrefna Björnsdóttir og Helgi Björgvinsson eru eigendur Hans og Grétu.

Hrefna segir að verslunin hafi gengið í gegnum ýmsar breytingar frá því að þau opnuðu þann 1. nóvember árið 2013.

„Við opnuðum fyrst í gamla pósthúsinu við Kirkjubraut. Á þeim tíma seldum við aðallega notaðar vörur – svipað og barnaloppann er í dag. Við bættum fljótlega við nýjum barnafatnaði í vöruúrvalið á Kirkjubrautinni á því 1 ½ ári sem við vorum staðsett þar. Við fluttum okkur í húsnæði á Smiðjuvöllum þar sem að Maríkó er í dag – og vorum með barnavörur í versluninni næstu 3 árin. Árið 2018 fluttum við í núverandi húsnæði sem er við hliðina á Módel á Þjóðbraut 1 – samhliða þeirri stækkun þá bættum við vörum fyrir fullorðna,“ segir Hrefna sem er ánægð með hve vel Skagamenn hafa tekið versluninni. „Við erum mjög ánægð með viðtökurnar. Íbúar á Akranesi eru duglegir að koma til okkar. Við erum einnig með vefverslina hansoggreta.is – sem opnar á möguleika fyrir alla landsmenn að versla hjá okkur og fá vörurnar sendar heim. Við fáum einnig gesti sem eru á ferðalagi um landið og það er alltaf að aukast,“ segir Hrefna.

Í versluninni Hans og Gréta er vöruúrvalið fjölbreytt en mesta áherslan er lögð á fatnað fyrir börn – og fullorðna. Einnig er gott úrval af ýmsum skóm, sundfötum og leikföng eiga einnig sinn stað í versluninni ásamt ýmsu öðru.

Hrefna og Helgi eru eigendur verslunarinnar en alls eru 5 starfsemnn í vinnu í versluninni, bæðí í fullu starfi eða hlutastarfi. „Það eru margar hendur sem koma að þessu með okkur. Við fáum aðstoð frá ýmsum þegar vörurnar koma – og þau hjálpa okkur við að koma öllu á sinn staða. Það er ómetanlegt,“ segir Hrefna Björnsdóttir eigandi Hans og Grétu.