Naumt tap í hörkuleik hjá ÍA gegn Fjölni í körfunni

Karlalið ÍA í körfuknattleik fékk mikinn stuðning frá fjölmörgum áhorfendum sem mættu á leik liðsins gegn Fjölni í næst efstu deild Íslandsmótsins. 

Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslitin á lokasekúndunum – en gestirnir úr Grafarvogi lönduðu tveggja stiga sigri, lokatölur 82-80. 

Liðin áttust nýverið við í VÍS bikarkeppninni þar sem að Fjölnir sigraði með miklum mun – og miðað við úrslitin úr þessum leik eru framfarir hjá ÍA liðinu. 

ÍA var tveimur stigum undir eftir 1. leikhluta, 15-17 og í 2. leikhluta náðí Fjölnir 10 stiga forskoti. Skagamenn náðu vopnum sínum á ný og aðeins eitt stig skildu liðin að í hálfleik, 37-38 fyrir Fjölni. 

Síðar hálfleikur var gríðarlega spennandi og Skagamenn komust yfir 77-75 þegar 3.30 mín lifðu af leiknum. Á lokamínútunum gekk mikið á. Leikmenn beggja liða gerðu allskonar mistök. ÍA fékk tækifæri að komast yfir í stöðunni 80-81 þegar 8 sekúndur voru eftir – en þriggja stiga skot frá Srdan Stojanovic fór ekki ofaní.  

Aamondae Coleman skoraði flest stig fyrir ÍA eða 23 alls, hann tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þórður Freyr Jónsson skoraði 16 stig, Jónas Steinarsson skoraði 12 og Srdan Stojanovic var með 10 stig.

Þetta var fimmti leikur ÍA á tímabilinu, og er liðið með 2 sigra og 3 töp í 7. sæti deildarinnar. Næsti leikur ÍA er á útivelli föstudaginn 10. nóvember gegn ÍR í Breiðholtinu.